Bókasafn Dagsbrúnar
Bókasafn Dagsbrúnar er sérfræðisafn á sviði atvinnulífsrannsókna og verkalýðsmála, sem og handbókasafn fyrir ReykjavíkurAkademíuna. Stofn Dagsbrúnarsafnsins er bókasafn Héðins heitins Valdimarssonar en þegar bókasafnið var stofnað á 50 ára afmæli Verkamannafélagsins Dagsbrúnar þann 26. janúar 1956 gaf frú Guðrún Pálsdóttir, ekkja Héðins félaginu bókasafn manns síns til minningar um hann.
Þann 27. nóvember 2003 gerðu ReykjavíkurAkademían og Efling með sér samkomulag sem fól í sér að safnið verður áfram í eigu Eflingar en ReykjavíkurAkademían annast daglegan rekstur þess og vörslu. Safnið er staðsett í húsnæði ReykjavíkurAkademíunnar við Þórunnartún í Reykjavík.
Safnkostur
breytaÁ safninu eru um 8.500 titlar og 11.700 bindi sem eru skráð í Gegni, samskrá íslenskra bókasafna. Á safninu eru einnig um 3.000 bækur í bráðabirgðaskrá, margar þeirra á ensku, þýsku, Norðurlandamálum, rússnesku og esperantó og margar þeirra tengdar verkalýðshreyfingum erlendis.
Stofn Bókasafns Dagsbrúnar eru dagblöð, tímarit, bækur og önnur gögn tengd verkalýðshreyfingunni. Stór hluti safnkostsins eru bækur frá 20. öld, almennt safn innlendra og erlendra rita sem bera pólitískri sögu safnsins vitni, þar má t.d. finna heildarverk frumkvöðla marxismans.
Meginstofn safnsins hefur verið fenginn að gjöf, stundum frá höfundum eða útgáfufélögum en aðallega frá einstaklingum. Stærsta gjöfin kom frá Þóri Daníelssyni eftir andlát hans árið 2008 en hann var bókavörður safnsins á árunum 1973 til 1998. Meðal annarra einstaklinga sem hafa gefið safninu stórar gjafir í gegnum árin eru: Geir Jónasson, Ásta Björnsdóttir ekkja Þorsteins Finnbjarnarsonar, Eyjólfur R. Árnason, Runólfur Björnsson, Guðrún Bjarnadóttir, Skúli Skúlason og Ágústa Jónsdóttir, Ásgeir Pétursson og Dýrleif Árnadóttir, dánarbú Sverris Kristjánssonar, Eðvarð Sigurðsson, Selma Hannesdóttir, Þorvaldur Þorvaldsson og Félag bókagerðarmanna.
Aðstaða
breytaÁ safninu er góð vinnuaðstaða og ein tölva er til afnota fyrir gesti safnsins og hægt er að leigja borð á bókasafninu fyrir ákveðið mánaðargjald. Á safninu er skanni sem safngestir geta fengið afnot af. Félagar í ReykjavikurAkademíunni sem hafa skrifstofur á staðnum geta fengið bækur að láni en einungis í innanhússlán.
Bóksala
breytaÁ safninu eru nokkrar bækur til sölu, aðallega tvítök úr safnkostinum, hægt er að skoða bókalistann og panta á netinu í gegnum Biblio.com eða koma við á safninu og kíkja á listann þar.
Opinn aðgangur
breytaBókasafn Dagsbrúnar styður frjálst aðgengi að upplýsingum og þekkingu og hefur starfsfólk safnsins aðstoðað höfunda við að koma verkum sínum í opinn, rafrænan aðgang þar sem allir geta nálgast verkið á auðveldan hátt. Hér má sjá þær bækur sem safnið hefur nú þegar komið í opinn aðgang.