Bógalda
Bógalda er alda sem myndast við bóg skips á ferð í vatni. Þegar bógaldan dreifist út til hliðanna myndar hún kjölfar. Stór bógalda hægir ferð skipsins og getur auk þess skapað hættu fyrir minni báta og skemmt mannvirki í höfnum. Þess vegna eru skip yfirleitt hönnuð þannig að þau skapi sem minnsta bógöldu.
Stærð bógöldu ræðst af ferð skips, djúpristu, yfirborðsöldum, dýpt vatns og lögun stefnis. Skip með mikla djúpristu og flatt stefni býr til stóra bógöldu meðan skip með hvasst stefni eða bátar sem fleyta á yfirborði vatnsins skapa minni bógöldu. Bógöldur eru rannsakaðar með straumfræðiútreikningum.
Bógaldan flytur hreyfiorku frá skipinu og hægir því á því. Skipahönnun fæst því meðal annars við að minnka bógölduna og bæta þannig orkunýtingu. Flest stærri nútímaskip eru búin perustefni til að eyða bógöldunni.