Bændaflokkurinn (fyrri)
Bændaflokkurinn var íslenskur stjórnmálaflokkur sem stofnaður var árið 1912 af nokkrum bændum sem sæti áttu á Alþingi. Líta má á hann sem fyrsta stéttaflokkinn í íslenskri stjórnmálasögu. Flokkurinn rann inn í Framsóknarflokkinn við stofnun hans árið 1916.
Saga
breytaÁtta þingmenn sem tilheyrðu bændastættinni stofnuðu Bændaflokkinn á Alþingi árið 1912 og var Jón Jónatansson búfræðingur helsti hvatamaður að stofnuninni. Flokkurinn hugðist vera mótvægi við hinar svonefndu æðri stéttir kaupmanna, menntamanna og embættismanna. Upphaflega átt i flokkurinn að fá nafnið Alþýðuflokkurinn en frá því var horfið.
Þegar þing kom saman árið 1913 var þingflokkur þessi formlega stofnsettur og höfðu þá þrír þingmenn slegist í hópinn. Formaður var kjörinn Ólafur Briem. Flokkurinn setti sér stefnuskrá en að öðru leyti var skipulag hans óformlegt, líkt og gilti um stjórnmálaflokka þessarra ára. Þannig voru þingmenn óbundnir í afstöðu sinni til stjórnarmyndunar. Studdu sumir þeirra Heimastjórnarflokkinn en aðrir Sjálfstæðisflokkinn.
Fyrir landskjörið 1916 klofnaði fylking bænda, þar sem Óháðir bændur buðu fram á eigin vegum. Listi þeirra hlaut rúmlega 20% atkvæða og einn mann kjörinn, Sigurð Jónsson í Ystafelli en Bændaflokkurinn hlaut ekki nema um 7%. Í Alþingiskosningunum sama ár fékk Bændaflokkurinn hins vegar fimm kjörna fulltrúa en Óháðir bændur einn. Bændaflokkurinn hélt ekki áfram starfsemi að kosningunum loknum og gengu flestir meðlimir hans til liðs við Framsóknarflokkinn.
Tilvísanir og heimildir
breyta- Einar Laxness (1998, 2.útg.). Íslandssaga a-ö. Vaka-Helgafell. ISBN 9979-2-0293-9.