Vargsnigill

tegund af snigli
(Endurbeint frá Arion vulgaris)

Vargsnigill (Arion vulgaris) er af Arionidae-ætt snigla sem ekki bera kuðung. Hann er rauður, rauðbrúnn eða rauðgulur að lit og getur náð 15 cm lengd. Snigillinn er upprunninn á Íberíuskaga og barst þaðan til annarra svæða í Mið- og Vestur-Evrópu upp úr 1960, líklega af mannavöldum. Hann var áður þekktur undir heitinu spánarsnigill. Vegna þurrs loftslags á Íberíuskaga hefur hann aldrei verið sérstaklega fyrirferðarmikill sem tegund þar, en þegar hann barst til rakari svæða í Norður-Evrópu fjölgaði honum hratt og er almennt talinn til meindýra. Snigillinn gefur frá sér mikið slím, gult að lit, og á sér fáa náttúrulega óvini. Þó er vitað að broddgeltir, greifingjar, villigeltir og einhverjar tegundir anda éta hann. Hann étur flest sem hann kemst í, allt frá matjurtum, kryddjurtum, laukum og skrautblómum til hundaskíts, hræja og annarra snigla. Vargsnigils varð vart á Skáni í Svíþjóð árið 1975 og hefur smám saman orðið landlægur á Norðurlöndum síðan, fannst í Noregi 1988, Danmörku 1991, Færeyjum 1996 og á Íslandi fannst hann fyrst í vesturbæ Reykjavíkur í ágústmánuði árið 2003, á Ólafsfirði 2004 og á hverju ári síðan. Vargsnigill breiddist smám saman um Ísland og fannst fyrst á Vestfjörðum í júlí 2008.

Vargsnigill

Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Lindýr (Mollusca)
Flokkur: Sniglar (Gastropoda)
Ættbálkur: Lungnasniglar (Pulmonata)
Ætt: Arionidae
Ættkvísl: Arion
Tegund:
A. vulgaris

Tvínefni
Arion vulgaris
(Mabille, 1868)

Vargsniglar eru tvíkynja og geta, hvort heldur eð er, frjóvgað sjálfa sig eða frjóvgað hvor annan þegar tveir hittast. Þeir grafa sig niður í jörðina og leggjast í dvala yfir veturinn, og þar sem þeir þola frost ekki vel, þá eru snjóþungir vetur hentugri fyrir þá en snjóléttir. Snigillinn verður kynþroska um fimm vikna gamall, verpir nokkrum tugum eggja í einu og þau klekjast á 3,5-5 vikum. Þeir eru því fljótir að fjölga sér þegar aðstæður eru þeim hagstæðar. Í Danmörku verða þeir stundum svo margir að menn telja 50 stykki á fermetra.

Heimild og ítarefni

breyta
  • Náttúrufræðingurinn, tímarit Hins íslenska náttúrufræðafélags, Reykjavík, árg. 73 (3-4), s. 75-78, 2005. Skoðuð 6. júní 2008. (Greinin vistuð og aðgengileg sem pdf-skjal á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands.)
  • Náttúrufræðistofnun Íslands: Vargsnigill
  • Náttúrufræðistofnun Íslands: Spánarsnigill snemma á ferð Geymt 6 mars 2016 í Wayback Machine (frétt 4. júní 2008)