Allt í grænum sjó
Allt í grænum sjó var ein fyrsta íslenska revían, samin og sviðsett árið 1913. Sviðsetningin olli hneyksli meðal Reykvíkinga sem ekki áttu því að venjast að dregið væri dár af kunnum einstaklingum á leiksviði. Verkið var ritskoðað fyrir frumsýningu að kröfu yfirvalda en að henni lokinni lagði bæjarfógeti bann við frekari sýningum og varð sú ákvörðun afar umdeild í Reykjavík.
Saga og bakgrunnur
breytaVorið 1913 auglýsti Stúdentafélag Reykjavíkur sjónleik í þremur þáttum sem sagður var eftir „færustu höfunda landsins“. Um var að ræða fjáröflunarsýningu fyrir húsbyggingarsjóð félagsins. Síðar átti eftir að koma í ljós að höfundar þessir voru allir milli tvítugs og þrítugs: Andrés Björnsson, Sigurður Sigurðsson, Jón B. Norland, Guðbrandur Jónsson og Skúli Thoroddsen yngri. Mun verkið hafa verið samið heima hjá þeim síðastnefnda í Vonarstræti 12, á heimili foreldra hans Skúla og Theodóru Thoroddsen.
Söguþráður verksins var sundurlaus samtíningur með skírskotunum til ýmissa málefna sem efst voru á baugi í íslenskri þjóðfélagsumræðu, s.s. sögulegar sættir fornra pólitískra andstæðinga, Hannesar Hafstein og Björns Jónssonar í Sambandsflokknum á þingi skömmu fyrr. Þetta óvænta bandalag var uppnefnt Bræðingurinn, en aðalflétta verksins snýst um skyndilegar ástir og trúlofun erkifjendanna Heimastjórnar-Dabba og Sjálfstæðis-Guddu“. Komu leikarar verksins fram í gervum sem minntu á marga helstu stjórnmálaforingja tímabilsins og var m.a. hermt svo vel eftir röddu Hannesar Hafsteins að sumir áhorfendur töldu að hann hefði sjálfur verið þar á ferðinni.
Það voru þó ekki pólitísku brandararnir sem mestur styr stóð um. Æfingar verksins fóru að miklu leyti fram í húsnæði Háskólans, en flestir í hópi leikenda og aðstandenda voru stúdentar. Fljótlega fór eitt og annað að kvisast út um efniviðinn og gripu yfirvöld í taumana og létu fjarlægja tvö atriði úr sýningunni. Annað þar sem talið var farið óvirðulega með danska fánann en hitt þar sem óviðeigandi var talið að syngja kersknisfullan texta við sálminn Hærra minn guð til þín. Þær breytingar reyndust ekki nægja til að slökkva gagnrýnisraddir.
Fengist hafði leyfi fyrir tveimur sýningum á verkinu, laugardaginn 3. maí og daginn eftir. Seldist upp á þær á augabragði og var fyrirhugað að bæta þriðju sýningunni við. Ekki kom til þess því daginn eftir frumsýninguna tilkynnti Jón Magnússon lögreglustjóri bæjarins um bann við frekari sýningum. Ástæðan var sögð athugasemdir frá almenningi vegna óviðurkvæmilegs innihalds verksins, en sjálfur hafði lögreglustjórinn raunar ekki séð sýninguna.
Fljótt varð altalað að umkvartanir skáldsins Einars H. Kvaran hefðu ráðið mestu um ákvörðun fógeta. Einar var sjálfur skotspónn í sýningunni en fast var skotið á spíritista í verkinu og spaugað með samkomur þeirra. Fleiri félagar í Sálarrannsóknarfélaginu brugðust illa við gamanmálunum og var þar sérstaklega gagnrýnt að breski spíritistinn William Stead væri þar látinn koma fram sem draugur, en um hann lék mikill hetjuljómi um þær mundir þar sem hann þótti hafa dáið hetjudauða þegar skemmtiferðaskipið RMS Titanic sökk árið áður.
Fjöldi blaðagreina var ritaður um ákvörðun yfirvalda og réttmæti hennar, auk þess sem nokkrir þátttakendur í deilunum héldu opinbera fyrirlestra um málið.
Heimildir
breyta- [1] Allt í grænum sjó, Lesbók Morgunblaðsis, 17.3.1979.
- Una Margrét Jónsdóttir: Gullöld revíunnar, fyrra bindi. Reykjavík, 2019.