Revía (úr frönsku revue, „endurskoðun, tímarit“) er tegund af leikhússkemmtun sem sameinar tónlist, dans og stutt gamanatriði. Revían á rætur að rekja til vinsælla skemmtana og æsingaleikrita frá 19. öld, en þróaðist út að verða sérstök tegund skemmtunar á gullaldarárum sínum frá 1916 til 1932.[1] Á Norðurlöndunum voru fyrstu revíurnar nýársskemmtanir fluttar í samkomuhúsum um miðja 19. öld, sem seinna þróuðust út í sumarrevíur fyrir borgaralega áhorfendur í sumarfríi á landsbyggðinni. Undir lok 19. aldar varð tónleikahússrevían til í Frakklandi sem varð þekkt fyrir íburðamiklar danssýningar. Revíur drógu oft dár að þekktum persónum úr fréttum eða bókmenntum. Líkt og óperettan og söngleikurinn sameinar revían ólík listform; tónlist, dans og gamanleik, til að búa til skemmtilega sýningu. Öfugt við óperettur og söngleiki er revían ekki með gegnumgangandi söguþráð. Í staðinn er almennt skilgreint þema eða „rauður þráður“ sem myndar yfirskrift fyrir laustengda röð af skemmtiatriðum, þar sem skemmtikraftar og dansatriði skiptast á.

Revían Maipo Super Star, sýnd í Teatro Maipo í Búenos Aíres árið 1973.

Hátt miðaverð, áberandi auglýsingaherferðir og lostafullt efni drógu að áhorfendur sem þénuðu meira og fannst þeir minna bundnir af millistéttarsiðgæði en á hinum náskyldu vaudeville-skemmtunum. Líkt og margar vinsælar skemmtanir þess tíma, innihéldu revíur oft listrænar, en óvirðilegar greiningar á málefnum, opinberum persónum og tískufyrirbærum, þótt aðalaðdráttarafl sýninganna hafi verið fáklæddar dansmeyjar.

Revían er náskyld vaudeville, variéte, music hall og kabarett, og misjafnt er hvert þessara hugtaka á við eftir stað og tímabili, þótt um svipaðar sýningar sé að ræða.

Tilvísanir breyta

  1. „Revue | theatre“. Encyclopedia Britannica (enska). Sótt 26. janúar 2021.