Alliance hf. var fyrsta togaraútgerðarfélag Íslands, stofnað hinn 18. október 1905. Það var umsvifamikið í útgerð og atvinnulífi Reykjavíkur á fyrri hluta 20. aldar.

Saltfiskbreiðsla á stakkstæði Alliance við Mýrargötu,um 1930.

Alliance hf. er nú einkum þekkt fyrir að hafa látið smíða Jón forseta RE 108, fyrsta togarann, sem var sérstaklega smíðaður fyrir Íslendinga, en Coot, fyrsti togarinn í íslenskri eigu var keyptur notaður til landsins.

Stofnendur Alliance hf. voru Thor Jensen kaupmaður, sem jafnframt var fyrsti framkvæmdastjóri félagsins, þilskipa-skipstjórarnir Halldór Kr. Þorsteinsson, Jón Ólafsson, Jón Sigurðsson, Jafet Ólafsson, Kolbeinn Þorsteinsson og skipstjórinn og stýrimannaskólakennarinn Magnús Magnússon. Þetta var fyrsta tilraunin til félagsstofnunar um togaraútgerð, sem tókst hérlendis. Félagið var lengi næststærsta útgerð landsins og hafði jafnan 3-5 togara á sínum snærum. Það var einn þriggja stofnenda Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda 1932.

Mikill uppgangur var í atvinnulífi við þessar miklu breytingar í sjósókn. Alliance hf. stækkaði mjög ört fyrstu árin, en sagt er að þrátt fyrir að Jón forseti hafi kostað óhemjufé hafi Alliance greitt hann upp á þremur árum. Félagið bætti skjótt við sig togurum og gerðist umsvifamikið í útgerðar- og fiskverkunarmálum höfuðborgarinnar, sem breyttist á örfáum árum í „trollarabæ“, eins og það var kallað. Þá hafði um fimmtungur bæjarbúa framfæri sitt af útgerð. Alliance bar víða niður í þeim efnum; það starfrækti m. a. lifrarbræðslu, saltfiskverkun, skreiðarverkun og síldarbræðslur.

Þessara umsvifa sást lengi stað í Reykjavík, löngu eftir að félagið lognaðist út af, snemma á áttunda áratugnum. Alliance-húsið stendur enn í Ánanaustum (á horni Mýrargötu og Grandagarðs), þar sem félagið eignaðist lóðir 1911-1913. Þær og tún Ívarssels við Vesturgötu voru notuð sem stakkstæði, þar sem saltfiskur var breiddur til þerris eða settur í stakka. Þetta er núna þekkt sem Héðinsreitur eða lóð Loftkastalans. Reykjavíkurborg keypti Alliance-húsið árið 2007 með það fyrir augum að vernda ytra byrði þess sem fágætt dæmi um sérhæfða byggingu úr atvinnusögu höfuðborgarinnar frá upphafi 20. aldar.

Tenglar breyta