Alex hugdjarfi
Alex hugdjarfi (franska: Alix L'intrépide) eftir Jacques Martin er fyrsta bókin í bókaflokknum um Ævintýri Alexar. Bókin kom út árið 1956, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í fransk-belgíska teiknimyndablaðinu Tintin þann 16. september 1948. Bókin var gefin út af Fjölva árið 1974 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er jafnframt fyrsta bókin í íslensku ritröðinni.
Söguþráður
breytaÁrið er 53 f.k. og herferð Markúsar Krassusar hershöfðingja Rómarveldis til Mesópótamíu í austri stendur sem hæst. Orrustu um hina fornu borg Korsabad er lokið með sigri Rómverja og foringi þeirra, Flavíus Marsalla, heldur innreið í borgina. Ungur þræll, Alex, fylgist með af svölum húss, en fyrir slysni hrynur grjót úr svölunum og fellur á Marsalla. Alex er handsamaður og ævareiður Marsalla skipar honum að upplýsa um felustað mikilla auðæfa í höll Sargons Assýríukonungs. Eftir að Marsalla finnur fjársjóðinn í kjallara konungshallarinnar færir sendiboði honum tíðindi af ósigri og dauða Krassusar ræðismanns í Orrustunni við Carrhae. Örvænting grípur Marsalla og hann fyrirskipar tafarlaust undanhald úr borginni. Rómverjarnir bera eld að höllinni og skilja Alex eftir til að deyja, en örlögin grípa í taumana og honum tekst að flýja brennandi höllina við illan leik. Örþreyttur leggst Alex til hvílu, en er vakinn af hermönnum Parþa sem komnir eru til borgarinnar. Alex nær að sannfæra Súrena, foringja Parþa, um hollustu sína og er leyft að yfirgefa borgina. Alex heldur til fjalla en er tekinn höndum af íbúum í afskekktu þorpi. Höfðingi þorpsins, Góra, vill láta svíða augun úr Alex svo hann geti ekki uppljóstrað um staðsetningu þorpsins, en hinn risavaxni Toraja kemur Alexi til bjargar og saman ná þeir félagar að flýja. Þeir eru síðar handsamaðir af herflokki Sarmata sem flytur þá til borgarinnar Trebisond við strönd Svartahafsins. Alex og Toraja eru færðir fyrir fulltrúa hins Rómverska valds sem selur þá í hendur Arbakosi, slóttugum, grískum kaupmanni og svörnum andstæðingi Marsalla sem einnig er kominn til Trebisond ásamt hjálparhellu sinni Markúsi. Arbakos siglir með Alex og Toraja áleiðis til Ródos. Marsalla og félagar veita eftirför, en verða fyrir árás Skýþverskra sjóræninga. Alex og Toraja fer að gruna Arbakos um græsku og þegar til Ródos er komið reynir hann að eitra fyrir Toraja. Alex og Toraja forða sér burt, en eru gripnir höndum og færðir fyrir landstjóra Rómverja, Honorus Galla. Landstjórinn er Alex velviljaður og tekur hann með sér til Rómar. Í Róm ræðst flokkur grímuklæddra manna á landstjórann í húsi hans og særa hann til ólífis. Á banasænginni segir hann Alex frá því að Alex sé sonur gallversks höfðingja sem landstjórinn seldi í ánauð þegar Alex var á barnsaldri. Nagaður af samviskubiti ákvað landstjórinn því að ættleiða Alex. Alex grunar Marsalla og Markús um að standa á bak við árásina og tekur áskorun um að mæta Markúsi í kappreið á leikvanginum í Róm að bæði Júlíusi Sesar og Pompeius viðstöddum. Alex ber sigur úr býtum, en þegar í ljós kemur að skemmdarverk voru unnin á hestvagni Markúsar lætur Pompeius taka Alex höndum og mælir svo fyrir að Alex og Markús skuli gera upp um málin í skylmingaeinvígi næsta dag. Það sem Alex veit ekki er að skemmdarverkið var að undirlagi Arbakosar, flugumanns Pompeiusar, og liður í að þvinga Marsalla hershöfðingja á band Pompeiusar í valdabaráttu við Sesar. Sesar fær veður af atburðum og sendir flokk manna til að nema Alex og Markús á brott af leikvanginum á meðan einvígi þeirra stendur sem hæst. Arbakos og félagar veita eftirför og ná að klófesta Alex sem er í kjölfarið dæmdur til dauða í sýndarréttarhöldum á vegum Pompeiusar. Á síðustu stundu tekst Toraja og Rúfusi, trúnaðarmanni Sesars, að bjarga Alex frá aftöku á ævintýralegan hátt, en á flóttanum særist Toraja til ólífis. Marsalla og Markús týna sömuleiðis lífi í hildarleiknum sem á eftir fylgir, en Arbakos nær að komast undan og er í kjölfarið sendur af Pompeiusi til Egyptalands þar sem bíða skal frekari fyrirmæla. Sesar fer með herlið sitt til vígstöðva í Gallíu og Alex ákveður að fylgja með og heimsækja ættland sitt í norðri.
Fróðleiksmolar
breyta- Höfundurinn Jaques Martin teiknaði nokkra fyrstu rammana í sögunni án þess að hafa ákveðið nokkuð um framhald og sendi útgefanda teiknimyndablaðsins Tintin til kynningar. Þegar sá hafði samband síðar og vildi sjá meira þurfti Martin að halda áfram með söguna. Framvinda sögunnar framan af ber þess og glöggt merki að vera spunnin jafnóðum af fingrum fram.
Heimildir
breyta- https://www.lambiek.net/artists/m/martin_jacq.htm Sótt 28. nóv. 2017
- https://sveppagreifinn.blogspot.com/search/label/Alex%20hugdjarfi Sótt 27. nóv. 2020