Svartfuglar

(Endurbeint frá Alcae)

Svartfuglar (fræðiheiti: Alcidae) eru ætt strandfugla. Þeir líkjast að sumu leyti mörgæsum þar sem þeir eru svartir og hvítir á lit, sitja uppréttir og lifa við sjó. Þeir eru þó alls óskyldir þeim. Flestar tegundir svartfugla eru búsettar í Kyrrahafi, en í Atlantshafi og N-Íshafi eru alls sex tegundir auk geirfugls sem er útdauð.

Svartfugl
Páklumbur
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Fuglar (Aves)
Ættbálkur: Strandfuglar (Charadriiformes)
Ætt: Alcidae
Leach, 1820
Ættkvíslir

Þær tegundir sem helst teljast til svartfugla eru: álka, langvía, stuttnefja, teista, lundi og haftyrðill. Langvía, stuttnefja og álka eru að mörgu leyti líkar tegundir, varpa í björgum og nefnast einu nafni svartfugl. Stærstu byggðir þeirra eru Látrabjarg, Hornstrandabjörgin og Grímsey.

Svartfuglar éta einungis sjáfarfang, aðallega uppsjávarfisk eins og sandsíli, loðnu og síld og krabbadýr eins og ljósátu og marflær. Lundi étur mest sandsíli og loðnu, Haftyrðill mest svifkrabbadýr. Teista er grunnsævisfugl og leitar að æti við botn.

Svartfuglar eru vel fleygir (nema geirfuglinn sem nú er útdauður) og góðir sundfuglar og kafarar en gangur þeirra er klaufalegur að sjá. Vegna þess hve vængir þeirra eru stuttir þurfa þeir að blaka þeim mjög hratt til að halda sér á lofti. Þeir geta verið á kafi í 2 mínótur og samkvæmt sumum heimildum kafað dýpra en nokkrir aðrir fuglar.

Svartfuglar lifa á opnu hafi og koma aðeins í land til að makast og verpa. Sumar tegundir, eins og t.d. langvía, eyða þó stærstum hluta ársins í að verja varpstæði sitt fyrir öðrum fuglum.

Sumar tegundir verpa í mjög stórum varpnýlendum í klettum, en aðrar verpa í minni hópum við grýttar strendur og enn aðrar, eins og lundinn, verpa í holum. Allar tegundir svartfugla mynda varpnýlendur. Svartfuglar verpa aðeins einu eggi og búa sér ekki til hreiður heldur verpa einfaldlega á harða sillu, Lundinn grefur sér þó holu. Um 18 daga gamlir yfirgefa ungarnir "hreiðrið" og eru þá ófleygir og falla gjarnan í sjóinn þótt þeir geti dempað fallið nokkuð með vængjunum.

Veiðar eru leyfðar á álku, langvíu, stuttnefju, og lunda hér á landi. Veiðitímabilið er 1. september til 10. maí. Teista var friðuð fyrir skotveiðum frá og með 1. september 2017 skv. reglugerð .


Heimild

breyta
   Þessi fuglagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.