Abel Valdimarsson

(Endurbeint frá Abel (konungur))

Abel Valdimarsson (121829. júní 1252) var konungur Danmerkur frá 1250 til dauðadags. Hann var sonur Valdimars sigursæla og Berengaríu af Portúgal, seinni konu hans, og bróðir konunganna Eiríks plógpenings og Kristófers 1.

Abel Danakonungur

Abel varð hertogi af Slésvík árið 1232. Árið 1241 lést Valdimar konungur og varð Eiríkur einn konungur Danmerkur en það sætti Abel sig ekki við og áttu þeir bræður í átökum árum saman. Þeim lauk ekki fyrr en Eiríkur var myrtur þegar hann var hjá Abel í Slésvík 10. ágúst 1250. Flestir töldu Abel ábyrgan en hann fékk 24 riddara til að sverja með sér tvöfaldan tylftareið um sakleysi sitt. Hann var svo krýndur konungur 1. nóvember 1250.

Abel vildi efla mjög samsbandið við Hansakaupmenn og gerði viðskiptasamninga við ýmsar Hansaborgir. Hann fékk þó ekki mikið ráðrúm til stjórnarathafna því hann var drepinn 29. júní 1252 í leiðangri sem hann fór gegn Frísum, sennilega til að innheimta hjá þeim skatta. Enginn danskur konungur hefur setið skemmri tíma í hásæti. Sagan segir að afturganga hans hafi haldið sig í dómkirkjunni í Slésvík og því var lík hans tekið úr gröfinni og sökkt í mýri við Gottorphöll og staur rekinn í brjóstkassa hans til öryggis.

Abel hafði gengið að eiga Mechthilde, dóttur Adólfs 4. greifa af Holtsetalandi, árið 1237. Þau áttu þrjá syni en enginn þeirra varð þó konungur, heldur var Kristófer bróðir Abels kjörinn konungur. Afkomendur Abels voru hertogar Slésvíkur þar til ættin dó út 1375. Mechthilde giftist aftur 1261 Birgi jarli, ríkisstjóra Svíþjóðar.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Eiríkur plógpeningur
Konungur Danmerkur
(1250 – 1252)
Eftirmaður:
Kristófer 1.