Þorláksskrín

(Endurbeint frá Þorláksskríni)

Þorláksskrín var smíðað nálægt árinu 1200 utan um líkamsleifar Þorláks helga. Það stóð yfir háaltari í dómkirkjunni í Skálholti og var verðmætasti gripur á Íslandi. Það var borið í helgigöngum á messudögum hans.

Fyrir verðleika Þorláks gerðust frammi fyrir skríninu alls konar jarteinir: „Þar fá blindir sýn, daufir heyra, krypplingar réttast, líkþráir hreinsast, haltir ganga, vitstolnir og djöfulóðir fá fulla bót, herteknir frjálsast, hvar á löndum er kalla á hans nafn. Mállausir fá mál, og alls konar innansóttir og sjúkleikar batna þar, og það er ekkert til meins mönnum eða fénaði, á sjó eða landi, að Guð gefur eigi heilsu og hjálp fyrir árnaðarorð síns blessaða vinar, Þorláks biskups, þegar á hann er heitið.“[1]

Páll Jónsson biskup fékk til að gera þetta skrín fyrir helgan dóm Þorláks „gullsmið þann, er Þorsteinn hét og þá var hagastur maður að málmi á öllu Íslandi... lagðist þar til ógrynni fjár í gulli og gimsteinum og í brenndu silfri. Hann lagði þar og eigi minna fé til skrínis og smíðarkaups með tillögum annarra manna en fjögur hundruð hundraða. Það smíði var mjög vandað, að það bar eigi minna af öðrum skrínum, þeim er á Íslandi voru, um fegurð en um vöxt, og var það betur en þriggja álna...“[2] Á siðskiptatímanum lét Gissur Einarsson setja það afsíðis í Skálholtskirkju.[3] Jón Helgason biskup bætti því við, að Gissur hefði látið „taka skrautið af skríni Þorláks og síðan eyða því. Þó voru til einhverjar leifar af því í Skálholti eftir það, og lét Brynjólfur biskup búa til nýtt skrín úr því, er geymdi skininn lærlegg úr manni. Þetta bein tók Jón biskup Vídalín 1715 og lét grafa niður í kirkjugarði.“[4] Síðast er vitað af skríninu, að það var selt á uppboði í Skálholti 1802.[5]

Tilvísanir

breyta
  1. Þorláks saga hin elsta, 83 kafli, bls 99, Íslenzk fornrit XVI, Reykjavík 2002.
  2. Páls saga biskups, 8. kafli. Þorsteinn er talinn hafa verið Skeggjason, norðan úr Öxnadal.
  3. Jón Halldórsson: Biskupasögur I, bls. 60, Reykjavík 1903.
  4. Jón Helgason: Kristnisaga Íslands I, bls. 84, Reykjavík 1925.
  5. Jón Þorkelsson: Íslenzkar ártíðaskrár. bls. 143, Kaupmannahöfn 1893-1896.

Heimildir

breyta
  • Kristján Eldjárn í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1973: Þorláksskrín í Skálholti - Samtíningur um glataðan forngrip, bls. 19-42.