Þjórsárdalsskógur

Þjórsárdalsskógur er skógur austast í innsveitum Árnessýslu. Skógurinn er að miklu leyti úr birki, en þar eru líka stórir reitir með blöndu af greni, furu og lerki. Um hann liggja merktir og ómerktir stígar og skógarvegir. Birkið í Þjórsárdalsskógi og víðar eru leifar miklu stærra skóglendis sem var nytjað öldum saman. Heklugos höfðu lítil áhrif á skóginn lengst af en langt kuldatímabil frá um það bil 1400 til 1900 og nytjarnar minnkuðu hann smám saman, ásamt auknum uppblæstri jarðvegs. Mestir birkiskógar héldust í Skriðufelli og að Ásólfsstöðum.[1]

Í Skriðufellsskógi, nyrðri hluta skógarins.
Einnig úr Skriðufellsskógi. Sandá sést lengst til vinstri.
Horft í norður að Dímon.

Skógrækt ríkisins keypti Skriðufell í Þjórsárdal árið 1938 og hluta úr jörðinni Ásólfsstöðum árið 1962. Eftir friðun hefur birkið breiðst út. Það finnst nú á þrefalt stærra svæði en 1960. Gróðursett var innan um kjarrið í Þjórsárdal fram undir 1990 en fremur niðri á söndum dalsins eftir það.

Skógrækt á söndum Þjórsárdals er nú hluti Hekluskógaverkefnisins en með því á að endurheimta birkiskóga og víðikjarr í nágrenni Heklu.

Þjórsárdalsskógur liggur vestan við þjóðvegi nr. 32 þar sem hann sveigir til austurs í átt að Búrfellsvirkjun. Hægt er að komast í skóginn af afleggjaranum að Ásólfsstöðum og einnig yfir göngubrú yfir Sandá sem liggur innar. [2]

Tenglar breyta

Tilvísanir breyta

  1. Þjórsárdalsskógur[óvirkur tengill] Þjórsárstofa. skoðað 25. janúar 2016.
  2. Suðurland. Þjórsárdalur Geymt 11 janúar 2016 í Wayback Machine Skógrækt ríkisins. Skoðað 25. janúar 2016.