Grindavíkurvegur

(Endurbeint frá Þjóðvegur 43)

Grindavíkurvegur eða þjóðvegur 43 er 14 kílómetra langur þjóðvegur sem liggur frá Reykjanesbraut við Vogastapa, framhjá Seltjörn og að Svartsengi, um skarð milli Þorbjarnar og Hagafells til Grindavíkur þar sem þjóðvegurinn liggur um göturnar Víkurbraut og svo Ránarbraut og endar við höfnina.

Horft yfir Grindavíkurveg frá Þorbirni.

Fram að 20. öldinni voru allar samgöngur á landi til Grindavíkur um gamlar þjóðleiðir á Reykjanesskaga sem voru aðeins troðningar sem mynduðust með umferð hesta og manna yfir margar aldir. Lagður var vagnfær vegur frá Hafnarfirði til Keflavíkur á árunum 1904 til 1913. Á sama tíma vöknuðu hugmyndir um að leggja akveg frá Grindavík sem gæti tengst hinum nýja Suðurnesjavegi við Vogastapa. Slíkur vegur var svo lagður á árunum 1914 til 1918.[1] Sá vegur lá að miklu leyti í sama vegstæði og núverandi Grindavíkurvegur en var á sumum stöðum færður til eftir því sem vegurinn var endurbættur þannig að hægt er að sjá ummerki um gamla vagnveginn til hliðar við núverandi veg. Grindavíkurvegurinn var svo malbikaður 1973. Vegurinn hefur verið á meðal fjölförnustu vega í íslenska vegakerfinu þar sem hann þjónar ekki aðeins Grindavíkurbæ heldur einnig talsverðri umferð ferðamanna að Bláa lóninu. Samkvæmt tölum Vegagerðarinnar fóru um 5000 bílar um veginn á dag árið 2023.[2] Vegna umferðarþunga og hraða hefur verið nokkuð um alvarleg slys á veginum en árið 2018 var hafist handa við að breikka veginn á nokkurra kílómetra kafla og gera hann að svonefndum 2+1 vegi með vegriði sem aðgreinir akstursstefnur.[3] Árið 2021 var meðalhraðaeftirlit tekið upp í fyrsta sinn á Íslandi á kafla á Grindavíkurvegi (og einnig í Norðfjarðargöngum).[4]

Strikað yfir nafn Grindavíkur og Bláa lónsins á vegaskilti í nóvember 2023.

Þegar Grindavíkurbær var rýmdur vegna jarðhræringar í nóvember 2023 var veginum lokað og merkingum á vegaskiltum breytt til að gefa til kynna að leiðin til Grindavíkur væri ekki opin almenningi. Í hrinu eldgosa við Sundhnúksgíga sem hófst í desember 2023 hefur hraun nokkrum sinnum runnið yfir Grindavíkurveg norðan Svartsengis og einnig ofan Grindavíkur. Vegurinn hefur jafnharðan verið endurgerður yfir nýja hraunið.

Vísanir

breyta
  1. „Grindavíkurvegir - samantekt unnin fyrir Vegagerðina“ (PDF). 1. janúar 2012.
  2. „Umferð og slysatíðni - kortasjá Vegagerðar“. Sótt 23. ágúst 2024.
  3. „Grindavíkurvegur breikkaður og vegrið sett á miðju“. Víkurfréttir. 24. september 2018.
  4. „Meðalhraðaeftirlit með myndavélum á Grindavíkurvegi“. Víkurfréttir. 16. nóvember 2021.