Þórir dúfunef var landnámsmaður í Skagafirði, leysingi Öxna-Þóris. Hann nam land í Blönduhlíð, frá Glóðafeykisá (nú Hvammsá) suður að Djúpá (nú Djúpadalsá) og bjó á Flugumýri. Hann er þekktastur fyrir hross sín, en um hann segir í Landnámabók:

Í þann tíma kom út skip í Kolbeinsárósi, hlaðið kvikfé, en þeim hvarf í Brimnesskógum unghryssi eitt; en Þórir dúfunef keypti vonina og fann síðan. Það var allra hrossa skjótast og var kölluð Fluga.
 
— Landnáma

Dúfunefsfell á Kili er sagt kennt við Þóri dúfunef, sem á að hafa hleypt Flugu þar í kapp við Örn nokkurn, en Fluga var svo miklu fljótari en hestur Arnar að Þórir sneri henni og mætti Erni á miðju skeiði. Hryssan Fluga var móðir góðhestsins Eiðfaxa, sem fluttur var til Noregs og varð þar sjö manna bani á einum degi. Fluga týndist í feni á Flugumýri og er bærinn sagður kenndur við hana.

Heimildir

breyta
  • „Landnámabók“.
  • Ólafur Lárusson (1940). Landnám í Skagafirði. Sögufélag Skagfirðinga.