Þórólfur Mostrarskegg

Þórólfur Mostrarskegg Örnólfsson (d. 918) var landnámsmaður á norðanverðu Snæfellsnesi og nam land á Þórsnesi. Frá honum og ættmönnum hans segir í Eyrbyggja sögu.

Þórólfur hafði mikinn átrúnað á Helgafelli.

Þórólfur var sonur Örnólfs fiskreka og bjó á eynni Mostur í Noregi. Í Eyrbyggju segir að hann hafi upphaflega heitið Hrólfur en þar sem hann var mikill blótmaður og trúði á Þór og hafði auk þess mikið skegg hafi hann verið kallaður Þórólfur Mostrarskegg. Þegar Haraldur hárfagri gerði Björn austræna útlægan leyndist Björn um tíma hjá Þórólfi og í framhaldi af því hraktist Þórólfur úr landi og fór til Íslands. Það var snemma á landnámsöld, tíu árum eftir komu Ingólfs Arnarsonar að því er segir í Eyrbyggju, og Þórólfur kom að nær ónumdu landi. Hann sigldi inn á Breiðafjörð og gaf honum nafn, skaut út öndvegissúlum sínum sem Þórsmynd var skorin á hét á Þór að vísa sér til landa. Súlurnar fundust reknar á nesi einu sem Þórólfur kallaði Þórsnes. Nam hann svo land á milli Stafár og Þórsár, reisti hof og nefndi bæ sinn Hofstaði.

Þórólfur er sagður hafa haft mikinn átrúnað á Helgafelli, sem er á nesinu, að hann sagði að þangað mætti enginn óþveginn líta. Hann setti héraðsþing á nesinu með ráði sveitunga sinna og var þar helgistaður mikill. Enginn mátti ganga örna sinna þar nálægt og þurftu menn að fara út í Dritsker, sem svo var nefnt, þeirra erinda. Seinna, eftir lát Þórólfs, urðu deilur og mannvíg út af þessu.

Þórólfur var tvíkvæntur. Önnur kona hans hét Unnur og var sonur þeirra Þorsteinn þorskabítur, faðir þeirra Þorgríms, mágs Gísla Súrssonar og föður Snorra goða og Barkar digra. Hin var Ósk Þorsteinsdóttir rauðs, sonardóttir Auðar djúpúðgu. Sonur Þórólfs var líka Hallsteinn goði, faðir Þorsteins surts.

Heimildir

breyta
  • „Landnámabók á snerpa.is“.
  • „Eyrbyggja saga á snerpa.is“.