Úlfsstaðir er bær í framanverðri Blönduhlíð í Skagafirði og hefur verið giskað á að jörðin sé landnámsjörð Hjálmólfs (eða Hjálmúlfs) sem þarna nam land og kennd við hann.

Úlfshaugur er á milli Úlfsstaða og Kúskerpis og er sagt að þar liggi Hjálmúlfur. Hann var heiðinn og á að hafa sagt erfingjum sínum að hann vildi vera heygður þar sem minnstar líkur væru til að klukknahljóð heyrðist. Úlfshaugur er mitt á milli kirknanna á Silfrastöðum og Miklabæ en þegar þjóðsagan varð til hefur líklega verið gleymt að kirkja var á Úlfsstöðum í kaþólskri tíð en var snemma lögð af, svo að ekki hefur Úlfur sloppið við klukknahringingarnar. Þar sem kirkjugarðurinn hafði verið var kartöflugarður seinna og komu öðru hverju upp mannabein með kartöflunum.

Heimildir breyta

  • Hjalti Pálsson (ritstj.): Byggðasaga Skagafjarðar IV. bindi. Akrahreppur. Sögufélag Skagfirðinga, 2007. ISBN 978-9979-861-15-7