Ólafur Halldórsson (f. 1855)

Ólafur Halldórsson, fullu nafni Ólafur Þorsteinn Halldórsson – (15. maí 185516. apríl 1930) – var íslenskur lögfræðingur sem starfaði í Kaupmannahöfn. Hann var skrifstofustjóri íslensku stjórnardeildarinnar þar, og er þekktastur fyrir útgáfu sína á Jónsbók, 1904.

Ólafur Halldórsson um þrítugt.

Æviferill breyta

Ólafur fæddist á Hofi í Vopnafirði. Foreldrar hans voru Halldór Jónsson (1810–1881) prófastur þar og alþingismaður, og fyrri kona hans Gunnþórunn Gunnlaugsdóttir (1824–1856).

Ólafur varð stúdent frá Reykjavíkurskóla 1877 og tók próf í lögfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1882. Snemma árs 1883 varð hann aðstoðarmaður í íslensku stjórnardeildinni í Kaupmannhöfn og varð skrifstofustjóri þar 1889. Hann fékk lausn frá störfum 1904, þegar Íslendingar fengu heimastjórn og deildin var lögð niður. Hann tók þá við skrifstofu Stjórnarráðs Íslands í Kaupmannahöfn og starfaði þar til 1909, þegar hann lét af störfum vegna heilsubrests. Hann dó 1930.

Hann var forseti Kaupmannahafnardeildar Hins íslenska bókmenntafélags 1885–1904 og heiðursfélagi þar 1895. Varð riddari af dannebrog 1894, dannebrogsmaður 1902 og konferensráð 1904. Hann var ógiftur og barnlaus. Hann var jarðaður í kirkjugarðinum í Ordrup

Útgáfan á Jónsbók 1904 breyta

Ólafur er þekktastur fyrir útgáfu sína á Jónsbók, lögbók Íslendinga, sem kom út í Kaupmannahöfn 1904. Raunar komu fleiri að því verki. Þeir Ólafur og dr. Jón Þorkelsson, síðar þjóðskjalavörður, hófu undirbúning verksins árið 1888. Fyrst höfðu þeir samráð við Vilhjálm Finsen um vinnubrögð og tilhögun útgáfunnar, en hann hafði þá lokið vísindalegri útgáfu á lagasafni þjóðveldisins, Grágás. Jón vann mikið að samanburði og uppskrift handrita þar til hann fluttist til Íslands 1899. Eftir það vann Ólafur einn að verkinu, þó að hann væri oft heilsulítill og hlaðinn öðrum störfum. Á lokasprettinum aðstoðaði Finnur Jónsson við prófarkalestur og lokafrágang.

Sem dæmi um umfang verksins má nefna að vísað er til tæplega 200 handrita af Jónsbók, auk þess sem lögbókin var til í 6 prentuðum útgáfum og í danskri þýðingu í 24 handritum.

Már Jónsson segir í formála Jónsbókarútgáfunnar 2004, bls. 28:

„Markmið útgáfunnar 1904 var ... tvíþætt. Ólafur Halldórsson vildi nálgast upprunalegan texta eftir því sem hægt væri en ætlaði jafnframt að sýna þann texta sem hafði gilt um aldir svo að hægt væri að nota útgáfuna við réttargæslu. Megintexti útgáfunnar gegndi fyrra hlutverkinu og er án innskota úr réttarbótum, en í óviðjafnanlegu og kerfi tvískiptra neðanmálsgreina birtist orðamunur úr elstu handritum og líka úr innskotnu meginhandritunum AM 343 fol. og AM 350 fol., sem og úr prentuðum útgáfum.“

Óhætt er að segja að útgáfan á Jónsbók hafi verið fræðilegt stórvirki. Bókin var ljósprentuð árið 1970, með 28 bls. eftirmála eftir Gunnar Thoroddsen (Odense Universitetsforlag).

Önnur útgáfustörf breyta

Ólafur gaf einnig út (ásamt Hilmari Stephensen) tvö síðustu bindin af hinu mikla verki Lovsamling for Island, þ.e. 20. og 21. bindi, Kbh. 1887 og 1889.

Heimildir breyta

  • Agnar Kl. Jónsson: Lögfræðingatal 1736–1963, Rvík 1963.
  • Már Jónsson (útg.): Jónsbók, lögbók Íslendinga, Háskólaútgáfan, Rvík 2004.