Fyrir leikararnn, sjá Ólafur Egill Egilsson.

Ólafur Egilsson (1564 – 1. mars 1639) var íslenskur prestur á Ofanleiti í Vestmannaeyjum sem numinn var á brott í Tyrkjaráninu árið 1627 ásamt um 400 öðrum. Um lífsreynslu sína og ferðalög ritaði Ólafur reisubók og segir hann þar frá svaðilförum sínum sem og háttum fólksins í borg sjóræningjanna, Algeirsborg.

Reisubók Ólafs Egilssonar á dönsku.

Ólafur var sonur Egils Einarssonar lögréttumanns á Snorrastöðum í Laugardal og konu hans Katrínar, dóttur Sigmundar Eyjólfssonar og Þuríðar stóru Einarsdóttur. Bróðir hans var Jón Egilsson, annálaritari og prestur í Hrepphólum.

Ólafur var líklega fyrst prestur á Torfastöðum í Biskupstungum en var orðinn prestur í Ofanleiti um 1594. Hann var hertekinn þar 1627 og fluttur til Algeirsborgar ásamt Ástríði (Ástu) Þorsteinsdóttur seinni konu sinni, þremur börnum þeirra og fjölda annarra. Ásta ól barn um borð í skipinu og segir Ólafur frá því í bók sinni að sjóræningjarnir hafi sýnt því hina mestu umhyggju.

Þegar til Alsír kom fengu yngstu börnin að fylgja Ástu en elsti sonurinn, ellefu ára, sem kóngurinn valdi handa sjálfum sér en hann átti rétt á áttunda hverjum þræl. Ólafur var svo sendur til Danmerkur til að fá konung til að greiða lausnargjald fyrir Íslendingana. Hann komst til Sardiníu, þaðan til Ítalíu við illan leik og loks til Danmerkur 27. mars 1628 en tókst ekki að fá neina úrlausn hjá konungi. Hann fór þá til Íslands, kom aftur 6. júlí, tæpu ári eftir ránið, og tók 1634 aftur við prestsskap á Ofanleiti en kona hans kom aftur níu árum seinna. Börn þeirra sem herleidd voru með þeim urðu öll eftir í Alsír en ein dóttir hafði orðið eftir á Íslandi og eins dóttir hans af fyrra hjónabandi með Helgu Árnadóttur.

Reisubók Ólafs Egilssonar þykir merk heimild, bæði um Tyrkjaránið og um sýn norrænna manna á líf og háttu manna í „Barbaríinu“.

Heimildir

breyta
  • „„Grafinn sjóður í sögu Evrópu". Gagnasafn Morgunblaðsins, sótt 13. júní 2011“.