Ólafur Daníelsson
Ólafur Daníelsson (f. 31. október 1877, d. 10. desember 1957) var fyrsti Íslendingurinn sem lauk doktorsprófi í stærðfræði.
Ævi
breytaÓlafur fæddist í Viðvík í Viðvíkursveit í Skagafirði, sonur Daníels Ólafssonar, söðlasmiðs og bónda, og konu hans, Svanhildar Loptsdóttur. Hann lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum í Reykjavík árið 1897. Sama ár hélt hann til Kaupmannahafnar til náms í stærðfræði. Hann lauk Mag.Scient.-prófi árið 1904. Ólafur hafði þá ritað stærðfræðiritgerð sem birt var í danska tímaritinu Nyt Tidsskrift for Matematik B. Fyrir ritgerðina hlaut hann gullpening Kaupmannahafnarháskóla.
Gefin var út ný reglugerð fyrir Lærða skólann árið 1904 og heiti hans breytt í Hinn almenni menntaskóli í Reykjavík. Staða stærðfræðikennara losnaði við skólann þetta sama ár þar sem Björn Jensson sem gegnt hafði stöðunni, féll frá. Ólafur hélt til Íslands að loknu prófi og sótti um starfið en Sigurður Thoroddsen, sem gegnt hafði stöðu landsverkfræðings, varð fyrir valinu.
Næstu ár fékkst Ólafur við einkakennslu, jafnframt því sem hann ritaði fyrstu útgáfu Reikningsbókar sinnar sem gefin var út árið 1906, og undirbjó doktorsritgerð. Ritgerðina, Nogle Bemærkninger om algebraiske Flader der kunne bringes til at svare entydigt til en Plan Punkt for Punkt varði Ólafur við Kaupmannahafnarháskóla árið 1909.
Kennaraskólinn var stofnaður árið 1908. Ólafur Daníelsson var ráðinn kennari við skólann. Hann kenndi stærðfræði en einnig dönsku og landafræði. Hann ritaði aðra útgáfu af Reikningsbók sinni með þarfir kennaranema í huga, en líta má á hana að mestu sem framhald fyrstu útgáfu.
Árið 1919 höfðu nokkrar umræður farið fram um stærðfræðideild við Hinn almenna menntaskóla. Ólafur Daníelsson og Þorkell Þorkelsson, síðar veðurstofustjóri, ráðgerðu að stofna sérstakan tækniskóla til undirbúnings náms við Verkfræðiskólann í Kaupmannahöfn, Det polytekniske Læreanstalt. Lyktir mála urðu þó að Ólafur var ráðinn til að kenna stærðfræði við nýja stærðfræðideild Menntaskólans sem stofnuð var 1919.
Fyrstu árin sem Ólafur starfaði við Menntaskólann ritaði hann fjórar kennslubækur í stærðfræði til nota fyrir nemendur, en skólinn var sex vetra skóli fram til 1949. Bækurnar voru:
- Reikningsbók (1920) geymdi bæði efni fyrstu og annarrar útgáfu og varð mjög útbreidd, endurútgefin mörgum sinnum fram til 1956,
- Um flatarmyndir (1920),
- Kenslubók í hornafræði (1923),
- Kenslubók í algebru (1927) var einnig mjög útbreidd og kennd í skólum fram á áttunda áratug tuttugustu aldar.
Ólafur tók til við vísindarannsóknir á næstu árum. Greinar eftir hann birtust í tveimur helstu tímaritum stærðfræðinga í Norður-Evrópu:
- Matematisk Tidsskrift: 1926, 1940, 1945, 1948
- Mathematische Annalen: Vol. 102 (1930), 109 (1934), 113 (1937), 114 (1937)
Ólafur lét af kennslustörfum árið 1941, tæpra 64 ára að aldri, en sneri sér að tryggingareikningum hjá Sjóvátryggingafélagi Íslands. Honum var sýndur margvíslegur sómi. Íslenska stærðfræðafélagið var til dæmis stofnað á sjötugsafmæli hans, 31. október 1947. Hann lést skömmu eftir áttræðisafmæli sitt, 10. desember 1957.
Heimildir
breytaGuðmundur Arnlaugsson og Sigurður Helgason (1996). Stærðfræðingurinn Ólafur Daníelsson. Saga brautryðjanda. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Tenglar
breyta- „Dr. phil, Ólafur Dan Danielsson“; grein í Morgunblaðinu 1957
- „Dr. Ólafur Dan. Danielsson - In memoriam“; grein í Vísi 1957
- Kristín Bjarnadóttir: Stærðfræðimenntun á tuttugustu öld : Áhrif Ólafs Daníelssonar Geymt 5 mars 2016 í Wayback Machine
- Sigurður Helgason: Hver var Ólafur Dan Daníelsson og hvert var framlag hans til stærðfræðinnar?
- Mathematische Annalen
- Matematisk Tidsskrift