Ólafur kyrri
Ólafur kyrri eða Ólafur 3. Haraldsson (um 1050 – 1093) var konungur Noregs frá 1067 til dauðadags, fyrst ásamt Magnúsi bróður sínum en eftir lát hans 1069 var hann einn konungur.
Ólafur var yngri sonur Haraldar konungs harðráða og Þóru Þorbergsdóttur konu hans. Þegar faðir hans hélt í herförina til Englands 1066 fór Ólafur með en tók ekki þátt í orrustunni við Stafnfurðubryggju þar sem Haraldur féll. Hann sneri aftur til Noregs árið eftir og tók við konungdómi ásamt bróður sínum; þeir virðast hafa ríkt í sátt og samlyndi en aðeins tveimur árum síðar dó Magnús og Ólafur ríkti einn eftir það.
Viðurnefni hans bendir til þess að hann hafi strax í upphafi þótt friðsamur og ekki líklegur til stórátaka og það gekk eftir, stjórnarár hans voru svo friðsöm að fátt er til af heimildum um þau. Hins vegar styrktist konungsvaldið og ríkið, konungshirðin stækkaði og evrópskir hirðsiðir voru innleiddir. Samskipti við páfagarð bötnuðu og biskupsstólum fjölgaði í Noregi.
Ólafur kyrri var fyrsti konungur Noregs sem lærði að lesa. Kona hans var Ingiríður, dóttir Sveins Ástríðarsonar Danakonungs. Launsonur hans með Þóru Jónsdóttur var Magnús berfættur Noregskonungur.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Olav Kyrre“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 28. desember 2009.
Fyrirrennari: Magnús Haraldsson |
|
Eftirmaður: Magnús berfættur |