Ólínuleg frásögn
Ólínuleg frásögn er frásögn þar sem atburðir eru ekki settir fram í reglulegri tímaröð og sagan hoppar fram og til baka í sögutímanum. Ólínuleg frásögn er aldagömul frásagnartækni sem nýtir sér meðal annars sögu í sögu, endurlit og framlit, samsíða söguþræði, in medias res og fleiri aðferðir til að líkja eftir minningum sögupersóna, skapa óreiðukennda fléttu eða óvæntar söguvendingar.
Fjölmörg dæmi um ólínulega frásögn er að finna í bókmenntasögunni, eins og í Ilíonskviðu þar sem frásögnin hefst í miðri sögu Trójustríðsins og endurminningasögum Sindbaðs sæfara. Módernískir rithöfundar á borð við Virginiu Woolf og Marcel Proust gerðu tilraunir með ólínulegar frásagnir og kvikmyndagerðarfólk tók þessa tækni snemma upp. Þekktir leikstjórar sem hafa notast við ólínulegar frásagnir í kvikmyndum eru meðal annars Alain Resnais, Jean-Luc Godard, David Lynch og Quentin Tarantino.