Ástríkur gallvaski
Ástríkur gallvaski (franska: Astérix) er söguhetja í bókum René Goscinny og Albert Uderzo um Ástrík og víðfræg afrek hans. Gefnar hafa verið út bækur, teiknimyndir, kvikmyndir og tölvuleikir um Ástrík og félaga hans á móðurmálinu frönsku sem og fjölda annarra tungumála, þar á meðal íslensku.
Saga
breytaSögusvið Ástríksbókanna er Gallía og ýmsir hlutar Rómverska heimsveldisins um árið 50 f. Krist og má reikna með að persóna Ástríks sá um þrítugt. Hann er smávaxinn og ætíð eins til fara: Í rauðum buxum, svörtum ermalausum bol, með vængjaðan hjálm á höfði og veglegt yfirvaraskegg.
Ástríkur er ásamt Sjóðríki seiðkarli rödd skynseminnar í gaulverska bænum sínum, sem tekst að halda sjálfstæði sínu gegn Júlíusi Sesari og Rómarveldi. Með hjálp töfraseyðis sem gefur ofurkrafta tekst Ástríki og öðrum bæjarbúum að hrinda sérhverri árás ofureflisins. Í mörgum bókanna neyðist Ástríkur til að leggja í ferðalög til fjarlægra landa ásamt Steinríki vini sínum, en sögunum lýkur einatt á að þeir snúa aftur að verkefni loknu og er fagnað með veislu.
Ástríkur er piparsveinn og er oft vikið að þeirri staðreynd í sögunum, ekki hvað síst í seinni bókunum sem Albert Uderzo samdi einn eftir dauða félaga síns. Í þeim bókum ber mun meira á rómantík og gamansamri umfjöllun um samskipti kynjanna en í fyrri sögum.