Ásdís Egilsdóttir

Ásdís Egilsdóttir (f. 1946) er fyrrum prófessor við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.[1]

Ásdís Egilsdóttir
Fædd1946
StörfFyrrum prófessor við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands

Ferill breyta

Ásdís lauk BA prófi í íslensku, bókasafnsfræði og frönsku við Háskóla Íslands árið 1970 og kandídatsprófi í í íslenskum bókmenntum 1982. Hún starfaði við Stofnun Árna Magnússonar á tímabilinu 1970 – 1989 og var jafnframt stundakennari við Háskóla Íslands þar til hún var ráðin í starf lektors í íslenskum bókmenntum fyrri alda árið 1991. Hún fékk framgang í starf prófessors 2009 og lét af störfum í októberlok 2016.[1][2]

Rannsóknir Ásdísar spanna vítt svið innan íslenskra miðaldabókmennta, en megináherslur í rannsóknum hennar eru norrænar helgibókmenntir, þýddar og frumsamdar, karlmennska og kynferði, ritun og lestur og læsi á miðöldum og minnisrannsóknir. Greinasafn með úrvali úr greinum hennar, Fræðinæmi, var gefið út í tilefni af sjötugsafmæli hennar, í október 2016. Þar er einnig að finna ritaskrá hennar fram til 2016.[3] Auk prentaðra rita hefur hún flutt fjölda fyrirlestra við íslenska og erlenda háskóla. Meðal helstu rita hennar má telja Biskupa sögur II, sem er ítarleg útgáfa á Hungurvöku, Þorláks sögu ásamt jarteinabókum og Pálssögu, með rækilegum inngangi og skýringum. Ásdís hefur tengt sagnaritun um íslenska dýrlinga við alþjóðlega helgisagnahefð og ritað greinar um það efni. Nokkrar þeirra eru birtar í Fræðinæmi. Ásdís er brautryðjandi í rannsóknum á karlmennsku í íslenskum miðaldabókmenntum. Þar hefur hún fjallað um fjölbreytilegar birtingarmyndir karlmennsku og þær kröfur sem samfélagið gerði til karlmanna á miðldum. Um þessar kröfur og frásagnir af ungum karlmönnum á mótunarskeiði er fjallað í greininni “Kolbítur verður karlmaður”, sem prentuð er í Fræðinæmi. Þá hefur hún lagt fram skerf til minnisrannsókna í greininni „From Orality to Literacy”, en þar er fjallað um lært minni (Memoria artificialis), aðferðir sem miðaldamenn notuðu til þess að læra utanbókar og myndmál sem af þessum aðferðum er dregið. Ásdís benti á að þesskonar myndmáli væri beitt í Jóns sögu helga. Greinin er prentuð í Fræðinæmi. Ásamt Dagnýju Kristjánsdóttur, prófessor í íslenskum bókmenntum og Bryndísi Benediktsdóttur, prófessor í samskiptafræði í læknadeild, hafði Ásdís frumkvæði að því að koma á fót kennslu í læknahugvísindum. Þar eru bókmenntatextar notaðir til þess að auka skilning á aðstæðum sjúklinga og tilfinningum[4][5][6].

Ásdís hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum. Hún var varamaður í Mannanafnanefnd 1993 – 1997, formaður Íslenskuskorar 1995 – 1998 og sat í stjórn Rannsóknastofnunar í bókmenntafræði 1994 – 1996 og í stjórn Bókmennta- og listfræðistofnunar 2014 – 1016. Hún sat í stjórn Rannsóknastofnunar í kvenna- og kynjafræðum 2006 – 2009 og var fulltrúi Hugvísindadeildar á Háskólafundi 2005 – 2008. Einnig var hún í stjórn Félags háskólakennara, 2005 – 2007 og varamaður Félags háskólakennara í Háskólaráði 2006 – 2008. Ásdís var virk í Nordplus, Erasmus og Sókrates samstarfi og hefur verið gestakennari við tíu erlenda háskóla í sjö löndum, Færeyjum, Noregi, Englandi, þýskalandi, Ítalíu, Póllandi og Tékklandi.[7] Í þakklætisskyni fyrir störf hennar fyrir pólska háskóla tileinkuðu pólskir samstarfsmenn hennar henni ritið Aspects of Royal Power in Medieval Scandinavia.

Einkalíf breyta

Foreldrar Ásdísar voru Erla Sigurjónsdóttir sjúkraliði (1928 – 2008) og Egill Valgeirsson hárskeri (1925 – 2012). Ásdís er gift Erlendi Sveinssyni, kvikmyndagerðarmanni og fyrrum forstöðumanni Kvikmyndasafns Íslands. Meðal verka hans má nefna Drauminn um veginn, Íslands þúsund ár og Verstöðin Ísland. Þau eiga tvö börn og fjögur barnabörn.

Heimildir breyta

  1. 1,0 1,1 „Ferilskrá – Ásdís Eigilsdóttir“. Sótt 7. júní 2019.
  2. Vísindavefurinn. Hvaða rannsóknir hefur Ásdís Egilsdóttir stundað? Sótt 7. júní 2019 af: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=75645
  3. Afmælisrit - Fræðinæmi. Efnisyfirlit. Sótt 7. júní 2019 af: http://hib.is/wp-content/uploads/2016/08/%C3%81sd%C3%ADs-Egilsd%C3%B3ttir-sj%C3%B6tug_NETI%C3%90-2.pdf
  4. Háskóli Íslands. (e.d.). Læknis- og bókmenntafræði hönd í hönd. Sótt 7. júní 2019 af: https://www.hi.is/fjarsjodur_framtidar5/laeknis_og_bokmenntafraedi_hond_i_hond
  5. Anna Marsibil Clausen. (2015, 3. nóvember). Kenna læknanemum að hlusta á fólk. mbl.is. Sótt 7. júní 2019 af: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/11/03/kenna_laeknanemum_ad_hlusta_a_folk/
  6. Háskóli Íslands. Hugvísindastofnun. (2016). Bókmenntir, læknisfræði, samlíðan. Sótt 7. júní 2019 af: http://hugvis.hi.is/bokmenntir_laeknisfraedi_samlidan Geymt 8 júní 2019 í Wayback Machine
  7. Gazeta uniwersytecka US. (2013). Sagi to dobre opowieści. Sótt 7. júní 2019 af: http://gazeta.us.edu.pl/node/273911