Jarteinabækur Þorláks helga

Jarteinabækur Þorláks helga geyma frásagnir af máttarverkum, sem svo voru álitin og þökkuð Guði fyrir árnaðarorð Þorláks biskups Þórhallssonar. Þessar bækur urðu ekki færri en þrjár.

Eftir að áheit voru leyfð á Þorlák biskup 1198, fóru gjafir að berast til Skálholts og frásagnir af jarteinum. Páll Jónsson biskup lét skrá þetta skipulega á bók, sem var lesin í heyranda hljóði á Alþingi sumarið 1199.[1] Í bókinni eru 46 frásagnir, sem allar eru úr biskupsdæminu og allar gerðust á undanfarandi einu ári. Margar þeirra eru beinlínis kallaðar jarteinir og þakkaðar Guði og hinum sæla Þorláki biskupi, en stundum er ekki sagt svo mikið. Nálægt fjórðungur af þessum frásögnum varðar búpening og búskap og meira en þriðjungur læknngu af mannanna meinum, fjórar snúa að ferjusiglingum, tvær að ölbruggun, tvisvar kemst fólk frá dukknun og nokkrar varða týnda hluti.

Síðar voru fleiri bækur ritaðar með jarteinum Þorláks. Í þeim er blandað saman frásögnum úr Skálholtsbiskupsdæmi, frá Norðurlandi og úr öðrum löndum. Þessar bækur þykja í mörgu sýna áhugaverðar þjóðlífsmyndir. Einna lengst að komin er frásögnin um væringja í Miklagarði, sem voru hætt komnir í herkví en hlupu fram með orðunum: "Göngum nú fram þrekmannlega í trausti hins sæla Þorláks biskups og sigrumst snarplega eða deyjum allir drengilega." Þeir unnu fagran sigur á ofurefli heiðingja, og síðan var kirkja reist þar eystra og helguð Þorláki.[2]

Tilvísanir breyta

  1. Jarteinabók Þorláks biskups 1199, 41. kafli.[1]
  2. Biskupa sögur II, Íslenzk fornrit XVI, bls 236-237, Reykjavík 2002. Þetta mun vera eina þekkta heimildin um kirkjuna.