Ábær

eyðibýli og kirkjustaður í Austurdal í Skagafirði

Ábær er eyðibýli og kirkjustaður í Austurdal, á eystri bakka Austari-Jökulsár í Skagafirði. Lítil steinsteypt kirkja sem var vígð 1922 stendur enn uppi að Ábæ, en bærinn sjálfur fór í eyði 1950. Ábæjarsókn var þjónað frá Goðdölum fyrst um sinn en árið 1907 var hún lögð til Mælifells.[1] Önundur vís, sem nam land í Austurdal, eftir því sem Landnámabók segir, bjó á Ábæ.[2]

Veitingarskálinn Ábær (nú N1 Ábær) á Sauðárkróki dregur nafn sitt af bænum, en honum stýrði meðal annars þingmaðurinn og fyrrum utanríkisráðherrann Gunnar Bragi Sveinsson áður en hann hóf þingstörf.[3]

Á Íslandi eru margir Árbæir en heitið Ábær er einsdæmi á landinu og tók Margeir Jónson heitið fyrir í sinni víðkunnu ritgerð sem heitir Torskilin bæjanöfn í Skagafjarðarsýslu.[4] Skýrist heitið af því að bærinn er ekki aðeins við eina á heldur tvær, Austari-Jökulsá og þverána við bæinn sem myndast í Ábæjardal fyrir ofan bæinn og ennfremur gilinu ögn utar. Var því bærinn nefndur Bær milli áa, sem í gamla málinu var Bær millum á. Síðan kemur bara smá þoka upp úr 1100 og þegar henni léttir heitir bærinn þessu nafni.[5]

Ábæjar-Skotta

breyta

Ábæjar-Skotta er þekktur draugur í íslenskum þjóðsögum og er kennd við bæinn. Hún lék fjölda manna illa, einkum í innanverðum Skagafirði, drap búsmala og hræddi fólk og sagt var að hún hafi ráðið nokkrum mönnum bana.[6]

Tilvísanir

breyta
  1. „Ábæjarkirkja Skagafirði - NAT ferðavísir“. 28 júlí 2020. Sótt 21 febrúar 2025.
  2. „Landnámabók (Sturlubók)“. www.snerpa.is. Sótt 21 febrúar 2025.
  3. „Gunnar Bragi Sveinsson“. Alþingi. Sótt 21 febrúar 2025.
  4. „Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 98. árg., 2004-2005 (01.01.2007) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 21 febrúar 2025.
  5. Feykir. „Torskilin bæjarnöfn - Ábær í Austurdal“. Feykir.is. Sótt 21 febrúar 2025.
  6. „Ísmús - íslenskur músík- og menningararfur“. www.ismus.is (enska). Sótt 21 febrúar 2025.