Wilson Muuga er rússneskt flutningaskip skráð á Kýpur. Skipið er alls 5700 lestir og var áður gert út af Nesskipum og hét þá Selnes. Skipið strandaði á Hvalsnesi þann 19. desember 2006 þegar það var á leið frá Grundartanga til Murmansk í Rússlandi.

Strand breyta

Um klukkan hálf fimm aðfaranótt 19. desember strandaði Wilson Muuga á Hvalsnesi í Sandgerðisbæ og kallaði á aðstoð. Veður var slæmt og var skipið komið inn fyrir skerjafláka undan landi. Danska varðskipið Triton fór til aðstoðar og sendi út tvo léttabáta sem báðum hvolfdi og enduðu skipverjarnir 8 í sjónum. Einn þeirra, Jan Nordskov Larsen, lést en hinum var bjargað um borð í TF-LÍF. Þann 19. desember var því lögð áhersla á að ná skipverjum úr flutningaskipinu og leita að dönskum skipverjum af Triton.

20. desember breyta

Þann 20. desember var tilkynnt um lítilsháttar leka að flutningaskipinu og að lítill olíufláki hefði myndast. Veður var slæmt þessa daga svo ekki var hægt að dæla olíu úr tönkum skipsins.

21. desember breyta

Þann 21. desember tókst að koma dælu og börkum um borð í skipið með þyrlu en slæmt veður var eins og fyrr.

22. desember breyta

22. desember voru menn frá Olíudreifingu fluttir út í skipið með þyrlu og undirbjuggu þeir dælingu olíu úr botntönkum skipsins í hliðartanka. Ljóst var að komið var gat á einn botntank skipsins og lak svartolía úr honum - þó var eittthvað lítið magn þar.

23. desember breyta

23. desember virtist það ljóst að skipið komist ekki af strandstað sínum nema í bútum. Sjópróf á áhöfninni leiddu það í ljós að bæði sjálfstýribúnaður og áttaviti biluðu og sýndu að skipið sigldi í hásuður þegar það stefndi á land og sigldi í raun í austur. Jafnframt var það á 13 hnúta ferð þegar það strandaði og er það ástæðan fyrir því hversu langt upp í landsteinana það fór. Þegar skipstjórinn uppgötvaði villu vegar var of seint að stýra frá og því fór sem fór.

26. desember breyta

Þann 26. desember var búið að koma leiðslum um borð og gera allt klárt fyrir olíudælingu úr skipinu og í land. Lítil olíubrák var frá skipinu og hvergi varð þess vart að fugl hefði lent í olíu. Menn töldu að sjávarrótið hefði dugað til þess að brjóta niður þá olíu sem frá skipinu hefði borist. Mjög mikil umferð var suður á Hvalsnes allan daginn á meðan birtu naut.

27. desember breyta

Um klukkan 4 aðfaranótt 27. desember var farið að dæla olíu úr skipinu og um klukkan 19 sama dag var búið að dæla 50 þúsund lítrum af olíu úr skipinu.

28. desember breyta

Þann 28. desember var lokið við dælingu úr skipinu en þá var alls búið að dæla 95 tonnum úr því.

19. janúar 2007 breyta

Þann 19. janúar 2007 sótti Nesskip, umboðsaðili eigandans á Íslandi, um mánaðarfrest til að ákveða hvað gera ætti við flakið. Ljóst þótti að brytja þyrfti skipið niður, hvort sem það yrði gert í fjörunni eða þar sem skipið stóð. Daginn áður fóru menn um borð í skipið og tóku ýmis verðmæti úr því. Björgunarsveitir munu fá þessi verðmæti sem þökk fyrir björgunaraðgerðir.

17. apríl 2007 breyta

Þann 17. apríl var skipinu komið á flot. Hafði þá verið unnið í margar vikur að því að þétta botninn svo að það flyti. Skipið var dregið út af dráttarbát og voru hafðar stýritaugar frá skipinu í land og einnig út í sker sitt hvoru megin skipsins til þess að halda því réttu þegar stríkkaði á dráttartauginni og það færi að hreyfast. Aðgerðin tókst mjög vel og tók ekki nema um hálftíma að ná skipinu á flot út úr skerjagarðinum. Eftir það var það dregið til Hafnarfjarðar.

23.apríl 2007 breyta

Skipið Wilson Muuga hefur verið selt og verður það dregið frá Hafnarfirði alla leið suður til Líbanon og annað hvort gert upp þar eða rifið en það er undir nýjum eigendum þess komið.

Heimildir breyta

  • „Minningarathöfn um Jan Nordskov Larsen“. Morgunblaðið. 22. desember 2006. Sótt 24. desember 2006.
  • „Áttaviti sýndi rétta stefnu þegar Wilson Muuga strandaði“. Morgunblaðið. 23. desember 2006. Sótt 24. desember 2006.
  • „Um kílómetra löng olíubrák við Wilson Muuga“. Morgunblaðið. 23. desember 2006. Sótt 24. desember 2006.
  • „Móttaka fyrir þá sem tæmdu olíuna úr Wilson Muuga“. Morgunblaðið. 30. desember 2006. Sótt 31. desember 2006.
  • „Sótt um mánaðarfrest til að ákveða örlög Wilson Muuga“. Morgunblaðið. 19. janúar 2007. Sótt 19. janúar 2007.