William Tecumseh Sherman

(Endurbeint frá William T. Sherman)

William Tecumseh Sherman (8. febrúar 1820 – 14. febrúar 1891) var bandarískur hermaður, athafnamaður, kennari og rithöfundur. Hann var hershöfðingi í her sambandssinna í Þrælastríðinu. Í styrjöldinni vann hann sér inn orðstír sem framúrskarandi herforingi en sætti einnig gagnrýni fyrir harkalegar aðferðir sínar og fyrir að skilja ekki annað eftir en sviðna jörð á landsvæði Suðurríkjasambandsins.[1][2]

William Tecumseh Sherman
William Tecumseh Sherman árið 1865 með sorgarborða um handlegginn vegna morðsins á Abraham Lincoln.
Fæddur8. febrúar 1820
Dáinn14. febrúar 1891 (71 árs)
New York-borg, New York, Bandaríkjunum
StörfHermaður
MakiEllen Ewing Sherman
Börn8
ForeldrarCharles Robert Sherman & Mary Hoyt Sherman
Undirskrift

Sherman hóf feril sinn í borgarastríðinu í fyrri orrustunni við Bull Run og Kentucky árið 1861. Hann var í her undir forystu Ulysses S. Grant árin 1862 og 1863 í orrustunum við Fort Henry og Fort Donelson, orrustunni við Shiloh, herferðunum sem leiddu til þess að vígi Suðurríkjanna í Vicksburg við Mississippi-fljót féll. Sherman fylgdi Grant einnig að málum í Chattanooga-herferðinni, sem endaði með ósigri Suðurríkjamanna í Tennessee-fylki. Árið 1864 tók Sherman við af Grant sem yfirherforingi sambandsmanna á vesturvígstöðvum stríðsins. Ásamt her sínum hertók hann borgina Atlanta og stuðlaði með þeim hernaðarsigri að endurkjöri Abrahams Lincoln forseta árið 1864. Sherman hóf síðan göngu til sjávar í gegnum Georgíu og eyddi öllum iðnaðarinnviðum, borgaralegum eignum og landbúnaðarafurðum á leiðinni svo ekkert gæti nýst Suðurríkjamönnum. Eyðileggingin sem Sherman skildi eftir sig stuðlaði að því að Suðurríkjasambandið neyddist til þess að gefast upp. Sherman þáði uppgjöf allra Suðurríkjaherja Karólínu, Georgíu og Flórída í apríl árið 1865 og hafði þá verið viðstaddur flest helstu átök vesturvígstöðva stríðsins.

Þegar Grant var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 1869 tók Sherman við sem yfirherforingi Bandaríkjahers og gegndi því embætti frá 1869 til 1883. Sherman fór því fyrir Bandaríkjahernum í Indíánastríðunum næstu fimmtán árin. Sherman vildi heyja stríð af fullum ofsa gegn Indíánum og neyða þá aftur inn á friðarlönd sín. Hann neitaði ávallt að láta draga sig inn í stjórnmál. Shermann birti árið 1875 æviminningar sínar um borgarastríðið. Breski sagnfræðingurinn B. H. Liddell Hart kallaði Sherman „fyrsta nútímahershöfðingjann“.

Tilvísanir

breyta
  1. Steven E. Woodworth, Nothing but Victory: The Army of the Tennessee, 1861–1865 (New York: Alfred A. Knopf, 2005), bls. 631.
  2. John B. Walters, Merchant of Terror: General Sherman and Total War (Indianapolis: Bobbs-Merrill, 1973).