Wikipedia:Grein mánaðarins/10, 2014
Þrjátíu ára stríðið var röð styrjalda sem áttu sér stað í Þýskalandi á árunum 1618 til 1648. Öll helstu stórveldi Evrópu drógust inn í átökin. Stríðsins var lengi minnst sem einnar skæðustu styrjaldar í Evrópu fram að Napóleonsstyrjöldunum og herfarir stríðsaðila og plágur sem þeim fylgdu lögðu mörg héruð Þýskalands því sem næst í auðn.
Augsborgarfriðurinn (1555) staðfesti að þýsku furstarnir (225 að tölu) gætu valið héruðum sínum trú (lútherstrú eða kaþólska trú) samkvæmt skilyrðinu cuius regio, eius religio í Hinu heilaga rómverska keisaradæmi sem náði á þeim tíma yfir Þýskaland, Austurríki, Ungverjaland og Bæheim.