Wikipedia:Grein mánaðarins/10, 2008
Rómaveldi eða Rómverska heimsveldið var ríki og menningarsvæði í kringum Miðjarðarhaf og í Vestur-Evrópu sem var stjórnað frá Rómarborg. Segja má að það hafi verið til frá árunum 753 f.Kr. (stofnun Rómar, samkvæmt fornri trú þar í borg) til ársins 476 e.Kr. (þegar síðasta keisaranum í Róm var steypt af stóli). Eftir það lifði þó austrómverska keisaradæmið, sem klofið hafði verið frá því vestrómverska árið 364 og var stjórnað frá Konstantínópel. Sögu rómverska heimsveldisins má skipta í þrjú tímabil: Rómverska konungdæmið, rómverska lýðveldið og rómverska keisaradæmið. Það var ekki fyrr en seint á lýðveldistímanum og á tíma keisaradæmisins sem yfirráðarsvæði Rómar fór að færast út fyrir Appennínaskagann.