Wikipedia:Grein mánaðarins/02, 2020
Lýðræðislega fylkjasambandið í Norður-Sýrlandi (Kúrdíska: Rojavaya Kurdistanê) betur þekkt sem Fylkjasambandið Rojava er de facto sjálfstjórnarsvæði í Norður og Austurhluta Sýrlands sem starfar útfrá hugmyndum um lýðræðislegt fylkjasamband. Fylkjasambandið Rojava skiptist í 3 kantónur: Jazira-hérað (Kúrdíska: cizîrê), Efrat-hérað (Kúrdíska: Herêma Firatê), áður þekkt sem Kobane-hérað í Norður-Sýrlandi og Afrín-hérað (Kúrdíska: efrîn) Í Norð-Vesturhluta landsins. Ásamt kantónunum þrem hafa fulltrúar svæðisbundinna ráða í Raqqa, Manbij, Tabqa og Deir ez-Zor tekið þátt í starfi Fylkjasambandsins.
Abdullah Öcalan, stofnandi Kúrdíska verkamannaflokksins í Tyrklandi, er fremsti kenningasmiður hugmyndarinnar um lýðræðislegt fylkjasamband Kúrda. Samkvæmt Öcalan felst lýðræðisleg sjálfstjórn í því þegar almúginn skipuleggur sig í sjálfstæðar grasrótarhreyfingar sem byggja meðal annars á hugmyndum um láréttar samfélagslegar formgerðir, frekar en stigveldi. Lýðræðislegt fylkjasamband (enska: democratic confederalism) felst í því að þessar hreyfingar mynda tengslanet þvert á landsvæði í formi fylkjasambands sem starfar út frá grasrótarlýðræði og þeirri hugmynd að samfélög stjórni sér sjálf í umboði fólksins. Markmið Rojava-verkefnisins er að stofna fylkjasamband að fyrirmynd hugmynda Abdullah Öcalan, og er því ekki um eiginlegt þjóðríki að ræða.