Wikipedia:Gæðagreinar/Knattspyrnufélag Reykjavíkur
Knattspyrnufélag Reykjavíkur, KR, er íþróttafélag í Vesturbænum í Reykjavík. Félagið var stofnað 16. febrúar árið 1899 og er elsta félag sinnar tegundar á Íslandi. Það var stofnað fyrst sem knattspyrnufélag, en núna eru starfræktar margar deildir innan félagsins. KR hefur unnið úrvalsdeildina í knattspyrnu 25 sinnum, oftast allra félaga og er KR eitt sigursælasta lið landsins í þremur vinsælustu íþróttagreinum landsins, handknattleik, körfuknattleik og knattspyrnu þar sem það hefur unnið 101 Íslands- og bikarmeistaratitil í karla- og kvennaflokki. KR-ingar eru ríkjandi Íslands- og Bikarmeistarar í knattspyrnu karla. KR á fjölda stuðningsmanna og samkvæmt mörgum könnunum á ekkert annað lið fleiri stuðningsmenn á landinu en KR.
Það var undir lok 19. aldar að erlendur prentari, James B. Ferguson að nafni, sem starfaði í Ísafoldarprentsmiðju, vakti áhuga ungra manna í Reykjavík á íþrótt sem kölluð var knattspyrna. Margir ungir menn, nemendur við lærða skólann m.a., tóku að iðka þessa íþrótt. Aðstaða til iðkunnar var þó ekki upp á marga fiska, oftar en ekki þurfti að hreinsa grjót af vellinum, melnum svokallaða, þar sem Melavöllurinn átti eftir að standa, til að getað spilað þar. Einn frægasti óperusöngvari Íslendinga, Pétur Á. Jónsson lýsti aðstæðum drengja sem að spiluðu knattspyrnu á melnum, um aldamótin 1900.