Vonarræðan
Vonarræðan eða „Endurskoðun Þýskalandsstefnu Bandaríkjanna“ var ræða sem James F. Byrnes, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hélt í Stuttgart 6. september 1946. Í ræðunni talaði hann um að Bandaríkjamenn væru ekki á förum frá Þýskalandi, hafnaði stækkun hernámssvæðis Sovétríkjanna og yfirtöku þýskra héraða austan við Oder-Neisse-línuna. Með ræðunni lýsti Byrnes yfir andstöðu við Morgenthau-áætlunina sem gekk út á að veikja iðnað Þýskalands eftir stríðið. Tilgangur ræðunnar var að koma í veg fyrir að hinir hernumdu Þjóðverjar hölluðu sér að kommúnisma í neyð sinni, en hún styrkti jafnframt ákvörðun pólskra kommúnista um að efla sambandið við Sovétríkin.