Veðandlag er það verðmæti sem veðsetning á að ná yfir, og stendur til tryggingar á efndum veðkröfunnar í samræmi við verðmæti þess. Ef veðandlagið samanstendur af tveimur eða fleirum fjárverðmætum er um að ræða sameiginlegt veð.

Afmörkun

breyta

Afmörkun veðandlagsins ákvarðar umfang þess með því að skilgreina þá hluti og/eða réttindi sem veðhafi gæti sótt fullnustu í ef á reyndi. Í íslenskum lögum er slíka afmörkun að finna hvað fasteignir varðar en þó veitt heimild fyrir aðila til að þrengja eða rýmka hana.

Óheimil veðandlög

breyta

Óheimilt er að setja verðmæti í veðandlagið nema lagastoð sé fyrir því og að það sé gert með þeim hætti sem lög áskilja. Út frá þessu má leiða að veðsalinn þurfi því, þegar veðsetningin á sér stað, að geta yfirfært verðmætin sem veðandlagið samanstendur af til þess tiltekna veðhafa með þeim hætti sem gert er með veðsetningunni, og byggir það skilyrði á því að veðhafinn geti eignast það verðmæti hindranalaust ef á reynir. Á slíkt gæti reynt ef eignayfirfærslan sé samkvæmt lögum háð samþykki þriðja aðila sem gæti komið í veg fyrir að gengið væri að veðinu með synjun sinni, eða jafnvel sökum lagafyrirmæla sem banna yfirfærsluna blákalt.

Þá geta verið tilteknar takmarkanir er leiða til þess að sum verðmæti megi ekki vera sjálfstætt veðandlag, og má þar helst nefna aflaheimildir, greiðslumörk bújarða og veiðiréttindi, en þau geti hins vegar fylgt þeim verðmætum sem þau tilheyra.

Veðandlag breytist

breyta

Ef veðandlag breytist, án þess að það hafi eyðilagst, fer eftir eðli breytingarinnar hver áhrifin verða. Sé eign skipt niður í fleiri hluta nær veðrétturinn til allra hlutanna nema veðhafinn samþykki annað. Ef eignin er sameinuð annarri eign mun veðandlagið vera óbreytt, og sem dæmi um þetta má nefna að ef jörð A og jörð B eru sameinaðar í jörð C, þá mun það veðandlag á jörð C eingöngu ná yfir það svæði sem jörð A náði yfir.

Veðandlag eyðileggst

breyta

Ef veðandlag eyðileggst fyrir tilviljun er beitt svokölluðum surrogat-reglum. Í þeim felst að eigandinn ber sitt tjón og veðandlagið skerðist sem nemur virðislækkuninni. Sé háttsemin talin saknæm í skilningi bótaréttar gæti stofnast sérstök bótaskylda, og sömuleiðis gæti stofnast slík skylda ef veðsalinn vanrækir skyldu sínu til að vátryggja veðandlagið. Eftir atvikum gæti veðhafinn átt rétt á eignarnámsbótum og/eða vátryggingabótum, en hins vegar eru skiptar skoðanir milli fræðimanna um hvort hið síðarnefnda gerist sjálfkrafa eður ei. Almennt séð færist veðrétturinn ekki yfir á þau verðmæti sem koma í staðinn en það hefur hins vegar ekki verið talið útilokað.