Vínlandskortið
Vínlandskortið er landakort sem fannst árið 1957. Kortið er um 35 cm á breidd og 48 cm á hæð og er það skrifað á bókfell, sem talið er fullvíst að sé frá 15. öld. Kortið sjálft var hins vegar talið falsað af sumum sérfræðingum m.a. vegna rannsókna á efnainnihaldi bleksins.
Vínlandskortið fannst bundið inn í handritið Historia Tartarorum um sögu Tartara. Það handrit er talið ófalsað og fjallar um sögu og siði Mongóla og virðist vera eldri útgáfa af minningum Ítalans Giovanni da Pian del Carpine. Carpine skrifaði seinna aðra lengri sögu af ferðum sínum.
Vínlandskortið fannst árið 1957 (þremur árum áður en minjar um norræna menn fundust í L'Anse aux Meadows) og var boðið Yale háskólanum til kaups, en háskólinn hafði ekki bolmagn til kaupanna. Paul Mellon keypti þá kortið og ánafnaði til Yale eftir að tveir safnstjórar við British Museum og einn bókasafnsfræðingur við Yale höfðu úrskurðað um trúverðugleika þess. Rannsókn þeirra á kortinu varð að vera leynileg að ósk Mellons og höfðu þremenningarnir því ekki möguleika á að kalla til sérfræðinga.
Árið 2021 kom í ljós að kortið er falsað. [1]
Heimildir
breyta- Lifandi vísindi:Gömul kort af öðrum heimi Geymt 12 maí 2006 í Wayback Machine
- The Vinland Map: Medieval or Modern? Geymt 19 desember 2007 í Wayback Machine
- MBl. 24. feb. 2004 Vínlandskortið ófalsað?
- Mbl. 16. ágúst 2002 Segja jesúíta höfund Vínlandskortsins
- Mbl. 16. ágúst 2002 "Þetta er stórkostleg fölsun!"
Tilvísanir
breyta- ↑ Vínlandskortið er falsaðRúv, skoðað 1/10 2021