Undirstaðan
Undirstaðan er skáldsaga eftir rússnesk-bandarísku skáldkonuna Ayn Rand, sem fyrst kom út 1957. Á ensku ber hún heitið „Atlas Shrugged“, sem merkir bókstaflega Atlas yppti öxlum, en í grískri goðafræði er Atlas jötunn, sem ber himininn á öxlum sér. Titill bókarinnar byggir á gamalgrónum misskilningi um að Atlas beri sjálfan heiminn á herðum sér og gæti varpað af sér byrðinni með því að yppa öxlum.
Höfundur | Ayn Rand |
---|---|
Upprunalegur titill | Atlas Shrugged |
Þýðandi | Elín Guðmundsdóttir (2012) |
Land | Bandaríkin |
Tungumál | Enska |
Útgefandi | Random House (í Bandaríkjunum) Almenna bókafélagið (á Íslandi) |
Útgáfudagur | 10. október 1957 |
ISBN | ISBN 9789935426420 |
Undirstaðan er talin merkasta skáldsaga Rand en þar gerir hún grein fyrir heimspekikenningum sínum. Hún er eindreginn stuðningsmaður einkaframtaks og atvinnufrelsis og svarinn andstæðingur þess, að einn maður geti lifað sníkjulífi á meðborgurum sínum. Hún setur fram svipaða fullkomnunarkenningu og Aristóteles, að hver maður verði að fá að vaxa og þroskast eftir eigin lögmáli en um leið að gæta jafnmikils frelsis annarra. Hetja Rand er hinn skapandi athafnamaður og þau tvö tákn mannsandans, sem hún bendir á með mestri velþóknun, er merki Bandaríkjadals ($) og skýjakljúfurinn.
Aðalsöguhetjan í Undirstöðunni er Dagný Taggart, sem rekur járnbrautarfélag fjölskyldu sinnar. Hún á í ástarsambandi við argentínska koparjöfurinn Francisco d’Anconia, iðnrekandann Hank Rearden og verkfræðinginn John Galt. Baksviðið er, að þeir menn, sem skapa auðinn með hugviti sínu, telji sér ekki skylt að vinna fyrir aðra, sem skapa ekki neitt, og gera þess vegna verkfall. Hafa ýmsar þýðingar bókarinnar á erlendar tungur einmitt verið nefndar „Verkfallið“.
Undirstaðan kom út á íslensku haustið 2012 í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur hjá Almenna bókafélaginu. Alls hefur bókin selst í um átta milljónum eintaka í heiminum.
Tenglar
breyta- Heimasíða Ayn Rand Institute Geymt 9 september 2004 í Wayback Machine
- „Ayn Rand“ Geymt 15 júní 2006 í Wayback Machine í The Internet Encyclopedia of Philosophy
- Grein um Rand eftir Andra Óttarsson Geymt 29 september 2007 í Wayback Machine
- Verk Ayns Rands á íslensku Geymt 15 október 2012 í Wayback Machine