Ummyndanir
Ummyndanir (stundum líka nefnd Hamskiptin[1] eða Myndbreytingarnar [2]) (latína: Metamorphoses) er söguljóð) eftir rómverska skáldið Óvidíus, samið undir sexliðahætti í fimmtán bókum. Óvidíus lauk líklega við ljóðafléttuna milli 8 og 2 f.Kr. Verkið er samansafn goðsagna þar sem menn eða guðir skipta líkjum, það er að segja ummyndast í annað form, dýr eða plöntur eða annað, og er verkið fléttað saman af mikilli hind þannig að um það bil 250 sögur renna saman eins og þær væru geirnegldar í eina heild. Einkennist verkið allt af léttleika og stílsnilld, enda var það mikið lesið í fornöld og á miðöldum, og er reyndar mikið lesið enn í dag.
Ummyndanir höfðu mikil áhrif á myndlist endurreisnartímabilsins og bókmenntir allt frá því verkið birtist fyrst. Það kom fyrst út í íslenskri þýðingu Kristjáns Árnasonar árið 1975 í tímaritinu Eimreiðinni.[3] Kristján kaus að þýða verkið í óbundnu máli að hætti Sveinbjarnar Egilssonar þegar hann þýddi Hómerskviður. Til að gefa hugmynd um verkið í ljóðformi, þýddi Kristján niðurlag verksins undir sexliðahætti og birti það í inngangi.
Jón Espólín þýddi verkið með fornyrðislagi á sínum tíma en sú þýðing hefur ekki komið út enn þá.