Tvíburi

(Endurbeint frá Tvíburar)

Tvíburar kallast tvö afkvæmi sem koma úr sömu meðgöngu. Tvíburar geta verið eineggja eða tvíeggja. Eineggja tvíburar verða til þegar eitt egg og ein sáðfruma myna okfrumu sem skiptir sér og býr til tvö fóstur. Eineggja tvíburar deila því sama erfðaefni, eru alltaf af sama kyni og því mjög líkir. Tvíeggja tvíburar, sem eru mun algengari en eineggja, verða til úr tveimur eggjum og tveimur sáðfrumum og eru því ekki líkari erfðafræðilega en venjuleg systkini. Tvíeggja tvíburar geta verið af sama eða sitthvoru kyninu. Í sjaldgæfum tilfellum eiga tvíeggja tvíburar sömu móður en sitthvorn föðurinn.

Þegar eitt fóstur þroskast í móðurkviði er það kallað einburi.

Það að eignast tvíeggja tvíbura er arfgengt, enda tvíeggja tvíburar algengari í sumum fjölskyldum. Eineggja tvíburar virðast aftur á móti vera háðir tilviljunum og hefur tíðni eineggja tvíburafæðinga haldist eins í heiminum, á meðan tíðni tvíeggja tvíburafæðinga hefur aukist með tilkomu frjósemisaðgerða. Annað sem eykur líkur á tvíeggja tvíburum er: aldur móður, fjöldi fyrri fæðinga, hæð móður og næring. [1]

Tvíburameðganga kemur oftast í ljós við ómskoðun. Mæðrum eru boðnar fleiri skoðanir á tvíburameðgöngu, en fer fjöldi þeirra eftir því hvort fylgjurnar eru ein eða tvær og svo hvort fósturbelgirnir eru einn eða tveir. Ef fylgjurnar eru tvær er oftast um tvíeggja tvíbura að ræða, þó í 30% tilfella séu það eineggja tvíburar. Ef fylgjurnar eru tvær, eru fósturbelgirnir einnig tveir. Slík meðganga er áhættuminnsta tvíburameðgangan. Ef aðeins ein fylgja er til staðar fyrir tvö fóstur er alltaf um eineggja tvíbura að ræða. Oftast eru fóstrin í sínum fósturbelgnum hvor, en í einstaka tilfellum deila fóstrin einum belg. Slík meðganga er hááhættu meðganga þar sem naflastrengirnir eiga það til að flækjast saman og loka fyrir blóðflæði til fóstranna.

Á Íslandi er meðallengd tvíburameðgöngu 36 vikur.[2] Flestir tvíburar fæðast heilbrigðir og flestar tvíburamæður eru heilbrigðar alla meðgönguna, en þó er aukin áhætta á fyrirburafæðingum og ýmsum meðgöngukvillum, svo sem meðgöngueitrun og e.t.v. meðgöngusykursýki þegar gengið er með tvíbura. [2] Hjá eineggja tvíburum sem deila fylgju getur komið upp blóðflæðisjúkdómur sem kallast tvíbura-tvíbura blóðrennslissjúkdómur (e. Twin-Twin Transfusion Syndrome, TTTS). Einnig getur vaxtarmisræmi orðið vegna galla í fylgju og fleira.


  1. „Er arfgengt að eignast tvíbura?“. Vísindavefurinn. Sótt 18. ágúst 2022.
  2. 2,0 2,1 „Tvíburameðganga - fósturþroski“. Heilsuvera. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. ágúst 2022. Sótt 18. ágúst 2022.