Tilfinning
Tilfinning er meðvituð huglæg upplifun geðshræringar eða snertingar.[1] Tilfinning á því bæði við um geðhrif sem eiga sér uppruna í okkur sjálfum, eins og ýmis konar skapsveiflur, öfund, afbrýðisemi,[2] reiði, meðaumkvun, gleði, ást og hamingju; og skynhrif sem stafa af samspili okkar við umheiminn, eins og þegar við skynjum að eitthvað sé heitt, eða kalt, mjúkt eða hart. Vitsmunakenningar um tilfinningar gera greinarmun á kenndum án sérstaks viðfangs, og tilfinningum sem snúa að einhverju inntaki.[3] Sársauki er dæmi um tilfinningu sem getur stafað bæði af innri og ytri þáttum. Öryggistilfinning eða sú tilfinning að finnast maður hafa fulla stjórn (eða hafa misst stjórn) á sjálfum sér og umhverfi sínu, er mikilvægt þegar kemur að andlegri velferð fólks.
Tilfinningar snúast um meðvitaða upplifun, en þegar fólk segist hafa eitthvað á tilfinningunni, eða hafa tilfinningu fyrir einhverju, vísar það oft til óútskýrðra upplifana eða vissu. Tilfinningum er þannig oft stillt upp sem andstæðu rökhugsunar. Platon gagnrýndi skáldin í Ríkinu fyrir að ýta undir óæskilegar tilfinningar, meðan Aristóteles hélt því fram að skáldskapur veitti fólki nauðsynlega útrás (kaþarsis) fyrir tilfinningar.[4] Tilfinningar eru oft taldar einkenna líkamnaða vitund og þannig ekki á færi annarra en dýra sem hafa hvort tveggja.[5]
Tilvísanir
breyta- ↑ Heiða María Sigurðardóttir (24.11.2005). „Af hverju fær maður verk fyrir brjóstið þegar manni sárnar?“. Vísindavefurinn.
- ↑ Fróði Guðmundur Jónsson (8.10.2019). „Hvaða munur er á öfund og afbrýðisemi?“. Vísindavefurinn.
- ↑ Kristján Kristjánsson (30.8.2005). „Er vit í tilfinningum?“. Vísindavefurinn.
- ↑ Geir Þ. Þórarinsson (5.11.2007). „Hvað felst í hugtakinu "kaþarsis" í leiklist?“. Vísindavefurinn.
- ↑ Solms, Mark (2021). The hidden spring : a journey to the source of consciousness. London. ISBN 978-1-78816-283-8. OCLC 1190847187.