Týdeifur
Týdeifur var í forngrískri goðafræði faðir Díomedesar og maður Deipýlu. Hann var sonur Öynefs og Períböyu, dóttur Hippónúss. Hann var í herliði hinna sjö gegn Þebu en Melenippos drap hann í orrustunni um borgina.
Útlegð
breytaAgríos frændi Týdeifs gerði hann útlægan frá Kalydon vegna þess að hann hafði vegið mann. Hann hélt til Argos, þar sem hann kvæntist Deipýlu, dóttur Adrastosar konungs. Konungur féllst á að veita Týdeifu liðveislu svo að hann gæti náð aftur völdum í Kalydon en ákvað að aðstoða fyrst Pólýneikesi að ná aftur völdum í Þebu.
Sjö gegn Þebu
breytaÍ Ilíonskviðu, Hómers er nokkrum sinnum vísað til hlutverks Týdeifs í umsátrinu um Þebu. Áður en átökin hófust var Týdeifur sendur til borgarinnar með skilaboð til Kadmea. Hann kom að þeim við veisluhöld í húsi Eteoklesar og skoraði á þá að etja kappi við sig í ýmsum þrautum. Keppnirnar vann hann allar með hjálp Aþenu. Kadmear tóku tapinu sárt og sendu fimmtíu menn á eftir Týdeifi er hann var á leiðinni aftur til hersins. Fyrir þeim fóru Majon og Polýfontes Átofonsson. Týdeifur drap þá alla að Majoni undanskildum því Aþena vildi að honum yrði þyrmt.
Í orrustunni um Þebu börðust Týdeifur og Melanippos. Melenippos stakk Týdeif í magann og særði hann til ólífis en Týdeifur drap þó Melenippos og át úr honum heilann. Að svo búnu hætti Aþena við að gera Týdeif ódauðlegan. Majon sá um útför Týdeifs, þakklátur honum fyrir að hafa þyrmt lífi sínu.