Töfrafestin frá Senegal

Töfrafestin frá Senegal (franska: Le gri-gri du Niokolo-Koba) er 25. bókin í bókaflokknum um Sval og Val og sú fimmta eftir listamanninn Fournier. Hún kom út á frummálinu árið 1974, en gefin út á íslensku 1982 og telst fjórtánda í röðinni í íslenska bókaflokknum.

Söguþráður

breyta

Sagan hefst í Niokolo-Koba þjóðgarðinum í Senegal. Glæpamaður brýst inn á heimili öldungsins Massa Mússa og krefst þess að hann láti sig fá töfrafesti nokkra. Gamla manninum tekst að grípa til kólí-demants, sem hefur þá náttúru að geta látið menn hverfa tímabundið. Massa Mússa felur ungum frænda sínum að koma töfrafestinni undan og flýgur hann með hana til Evrópu. Þrjótarnir snúa aftur og ræna Massa Mússa og demöntunum.

Í París lendir ungi frændinn í eltingaleik við glæpamennina. Hann hittir Sval og Val og felur þeim að varðveita töfrafestina andartaki áður en þrjótarnir láta hann hverfa með hjálp demantanna.

Svalur og Valur halda til Senegal til að koma festinni til skila. Í þjóðgarðinum ríkir uppnám þar sem fjöldi dýra virðist hafa gufað upp. Nokkrar persónur eru kynntar til sögunnar sem gætu borið ábyrgð á dýrahvarfinu, s.s. þjóðgarðsforstjórinn, stjórnandi ferðaþjónustufyrirtækis og Pluchon Park, breskur majór sem falast hafði eftir þjóðgarðinum.

Blaðakonan Órórea gefur sig fram, með sannanir fyrir því að dýrin hafi verið látin hverfa með hjálp kóli-demanta. Svalur og Valur uppgötva hvar Massa Mússa er í haldi og tekst að yfirbuga breska majórinn sem stóð á bak við ráðabruggið. Skýringin var sú að hann uppgötvaði að leyndar demantanámur væri að finna í þjóðgarðinum og að kort af þeim væri falið í töfrafestinni. Vonaðist hann til þess að með brotthvarfi dýranna gæti hann eignast garðinn fyrir lítið fé.

Fróðleiksmolar

breyta
  • Pólýnesíska stúlkan Órórea, sem kynnt var til sögunnar í Tora Torapa kemur talsvert við sögu í bókinni. Valur á bágt með að hemja ást sína á henni.
  • Einn þrjótanna slasast í eltingaleiknum við Sval og Val í Parísarborg. Á sjúkrahúsinu rekst hann á teiknimyndasögur um ævintýri þeirra félaga og veit því við hverja hann á að eiga.
  • Niokolo-Koba þjóðgarðurinn í Senegal er til í raun og veru. Teiknimyndablaðið Svalur efndi til samkeppni meðal lesenda sinna þar sem verðlaunin voru ferð í þjóðgarðinn. Fournier var boðið að slást í hópinn og kom hann heim með fjölda teikninga og hugmynd að sögunni.

Íslensk útgáfa

breyta

Töfrafestin frá Senegal var gefinn út af Iðunni árið 1982, en ekki er getið um þýðanda hennar. Þetta var fjórtánda bókin í íslensku ritröðinni.