Ánastaðir eru fornbýli. Bærinn er í Vestur-Húnavatnssýslu á Vatnsnesi vestanverðu, gegnt enda Heggstaðaness. Jörðin er stór og liggur vel við sjó, og þar hafa verið bæði verbúðir og hjáleigur nokkrar frá ýmsum tímum.

Hvalrekinn á Ánastöðum 1882

breyta

Þann 24. maí 1882 gerði aftaka veður um nálega allt land með þeim afleiðingum að hafísinn rak að landi og fyllti allar víkur og voga. Að kvöldi 25. maí varð heimilisfólkið á Ánastöðum vart við að hvalir höfðu lokast inni í vík sem Sandvík heitir. Sendi þá Eggert bóndi eftir aðstoð til næstu bæja til að aflífa hvalina svo nýta mætti kjötið og spikið af þeim. Fjórir hvalir náðust þarna um nóttina því þeir voru svo fast klemmdir af ísnum að þeir gátu lítið sem ekkert hreyft sig. Nokkuð auðvelt var að komast að þeim því íshellurnar voru það þéttar. Daginn eftir var hvalveiðunum haldið áfram og nú voru notaðir 2 bátar við veiðarnar. Þá voru komnir margir menn úr sveitinni til að hjálpa til við hvalskurðinn. Þennan dag voru allir hvalirnir 31 að tölu drepnir ýmist úr bátunum eða af íshellunum. Allir voru þeir 20 – 22 metrar að lengd. Þegar hvalirnir voru dauðir, sukku þeir og ísinn lagðist yfir en eftir 2-3 daga hafði myndast svo mikið gas í þeim að þeir flutu upp og veltu af sér ísjökunum. Þá voru þeir dregnir að landi og var það afar erfitt verk. Hvalirnir voru svo þungir og stórir að ekki var hægt að draga þá alveg upp í fjöruna því strax á 5 metra dýpi kenndu þeir grunns. Tóku menn það til bragðs að skera ofan af hvölunum rengið og moka innyflum þeirra í sjóinn og eftir því sem þeir léttust þeim mun nær landi var hægt að draga þá þegar flæddi að. Vinnuaðstaða mannanna var mjög slæm því þeir urðu annað hvort að standa á sjálfum hvölunum eða á ísnum en allt var flughált af grút. Engin slys urðu þó á mönnum. Í landi voru síðan reistar trönur þar sem kjötstykkin voru hengd upp og var þungi þeirra merktur með skorum í kjötið og þýddi hver skora vissa þyngd. Var því fljótlegt að afgreiða hvalinn því viktin var mörkuð á hvert stykki.

Þann 25. maí varð bóndinn í Gröf á Vatnsnesi var við hval sem var skorðaður á milli jaka fyrir neðan bæinn. Jónas bóndi hélt að hvalurinn væri dauður hljóp út á ísinn og stökk upp á hvalinn. Ekki kunni hvalurinn sem var á lífi, við að láta einhvern bónda troða á sér og reyndi því að dýfa sér. Jónas stökk þá af hvalnum en hann synti innar í fjörðinn og var lagður þar. Var þessi hvalur sá 32. sem veginn var þennan dag.

Mikil harðindi höfðu herjað á landsmenn þennan vetur og margir orðnir matarlitlir því var þessi hvalreki sannkallaður happafengur. Fljótt flaug fregnin um þennan hvalreka og eftir fáa daga var fjöldi manna kominn á hvalfjöruna, sumir langt að. Með þessum mönnum komu mislingar sem þá voru farnir að breiðast út um Suðurland. Lögðust þá allir í mislinga sem miðaldra voru og yngri. Því varð að hætta hvalskurðinum í bili og var ekki hægt að ná eins miklu kjöti og annars hefði verið.

Veðráttan hélst slæm allt sumarið, frost flestar nætur og snjókoma fram yfir mitt sumar og var fjárdauði mikill. Ekkert vöruskip kom á Húnaflóa fyrr en um haustið var því lítið annað að borða en mjólk og hvalur. Mun hann hafa verið fluttur á öll heimili í Húnavatnssýslu, mikinn hluta Skagafjarðar, eins í Borgarfjarðar-, Mýra-, Dala- og Strandasýslur.

Ekki varð Eggert bóndi á Ánastöðum auðugur maður af þessum mikla hvalreka og var það haft eftir honum að fyrst Guð hefði sent þessa miklu björg til að bæta úr bjargarskorti þeim og neyð er þá var víða, bæri sér að stuðla að því að sem flestir gætu notið þess. En þessi mikli hvalreki, sem einstæður er í sögu landsins, varð til þess að bjarga mörgum sveitum frá bjargarskorti og hungursneyð sem tvímælalaust hefði annars orðið.

Heimild

breyta
  • Guðmundur Jónsson, Ánastöðum. 1939. „Hvalskurðurinn á Ánastöðum“. Lesbók Morgunblaðsins. 19. febr. bls. 49.