Dvergar (norræn goðafræði)
Dvergar samkvæmt sköpunarsögu norrænnar goðafræði eins og hún birtist í Snorra-Eddu eru sagðir hafa kviknað í holdi jötunsins Ýmis líkt og maðkar, uns goðin hafi gefið þeim vitund. Í Völuspá Eddukvæða aftur á móti er sköpun þeirra lýst þannig að þeir hafi verið skapaðir af blóði Brimis og beinum Bláins. Þeir koma fyrir bæði í Snorra-Eddu og Eddukvæðum og fornaldarsögum Norðurlanda en leika þó sjaldnast stór hlutverk í sögunum, þó er undantekning frá því sem eru Norðri, Suðri, Austri og Vestri sem halda uppi sjálfri himinhvelfingunni. Ekki eru þó margir dvergar nefndir til sögunnar, og þá einna helst sem smiðir hinna ýmissu gersema og vopna og má þar sem dæmi nefna Mjölni, hamar Þórs.
Þeim er yfirleitt lýst sem litlum dökkleitum eða svörtum verum sem lifa í steinum eða neðanjarðar og eru þekktastir fyrir að vera afburða völundarsmiðir. Margir fræðimenn hafa staðsett þá mitt á milli goða og jötna, með sköpunarhæfileika líkt og goðin en dvelja í myrkraveröld líkt og jötnar. Til marks um það er að hægt er að lesa út úr Völuspá að fyrstu mannverurnar, Askur og Embla, hafi verið sköpuð af dvergum en goðin þrjú sem fundu þau hafi blásið þeim lífsandann. Ekki eru þó allir fræðimenn sammála þessarri túlkun. Eins hefur verið bent á að Svartálfar, líkt og dvergar, eru sagðir búa í Svartálfaheimi og hafi því mögulega verið sömu verur og dvergar.[1]
Þekktir dvergar í Norrænni goðafræði
breytaMeðal þeirra þekktustu eru Norðri, Suðri, Austri og Vestri sem halda uppi himinhvelfingunni eins og að ofan er getið, Brokkur og Sindri sem smíðuðu þrjár gjafir til ása, hringinn Draupni, svínið Gullinbursta og hamarinn Mjölni og svo Dvalinn og Durinn sem smíðuðu sverðið Tyrfingur í Hervarar sögu.
Dverganöfnin í Völuspá
breyta9.
- Þá gengu regin öll
- á rökstóla,
- ginnheilög goð,
- ok um þat gættusk,
- hverir skyldi dverga
- dróttir skepja
- ór Brimis blóði
- ok ór Bláins leggjum.
10.
- Þar var Móðsognir
- mæztr of orðinn
- dverga allra,
- en Durinn annarr;
- þeir mannlíkun
- mörg of gerðu
- dvergar í jörðu,
- sem Durinn sagði.
11.
- Nýi, Niði,
- Norðri, Suðri,
- Austri, Vestri,
- Alþjófr, Dvalinn,
- Nár ok Náinn
- Nípingr, Dáinn
- Bívurr, Bávurr,
- Bömburr, Nóri,
- Ánn ok Ánarr,
- Óinn, Mjöðvitnir.
12.
- Veggr ok Gandalfr,
- Vindalfr, Þorinn,
- Þrár ok Þráinn,
- Þekkr, Litr ok Vitr,
- Nýr ok Nýráðr,
- nú hefi ek dverga,
- Reginn ok Ráðsviðr,
- rétt of talða.
13.
- Fíli, Kíli,
- Fundinn, Náli,
- Hefti, Víli,
- Hannar, Svíurr,
- Billingr, Brúni,
- Bíldr ok Buri,
- Frár, Hornbori,
- Frægr ok Lóni,
- Aurvangr, Jari,
- Eikinskjaldi.
14.
- Mál er dverga
- í Dvalins liði
- ljóna kindum
- til Lofars telja,
- þeir er sóttu
- frá salar steini
- Aurvanga sjöt
- til Jöruvalla.
15.
- Þar var Draupnir
- ok Dolgþrasir,
- Hár, Haugspori,
- Hlévangr, Glóinn,
- Dóri, Óri
- Dúfr, Andvari
- Skirfir, Virfir,
- Skáfiðr, Ái.
16.
- Alfr ok Yngvi,
- Eikinskjaldi,
- Fjalarr ok Frosti,
- Finnr ok Ginnarr;
- þat mun æ uppi
- meðan öld lifir,
- langniðja tal
- Lofars hafat.[2]
Tilvísanir
breyta- ↑ Simek (2007:305), Orchard (1997:35), and Hafstein (2002:111).
- ↑ Völuspá, nútímastafsett af Guðna Jónssyni