Súkúmí
Súkúmí (abkasíska: Аҟәа, Aqwa; georgíska: სოხუმი, Sokumi; rússneska: Сухум(и), Súkúmí) er borg á strönd Svartahafs. Hún er höfuðborg de facto ríkisins Abkasíu sem hefur farið með völd í héraðinu frá Stríðinu í Abkasíu 1992-1993. Flest ríki líta svo á að Abkasía sé hérað í Georgíu.
Hægt er að rekja sögu Súkúmí til 6. aldar f.Kr. þegar Grikkir stofnuðu þar nýlendu sem þeir kölluðu Díoskúrías. Mikið af þeirri borg hvarf undir yfirborð Svartahafs á næstu öldum. Borgin var nefnd Tskhumi þegar Konungsríkið Abkasía var stofnað á miðöldum. Hún varð hluti af Tyrkjaveldi á 8. áratug 16. aldar. Rússneska keisaradæmið lagði héraðið undir sig 1810. Eftir Rússnesku borgarastyrjöldina varð hún hluti af Sovétríkjunum og varð vinsæll sumardvalarstaður. Við upplausn Sovétríkjanna í upphafi 10. áratugar 20. aldar hófust átök Abkasa við Georgíumenn og borgin varð fyrir miklum skemmdum. Nú búa þar um 60.000 manns en íbúar voru helmingi fleiri undir lok Sovéttímans.