Straumsvík er vík í hrauninu rétt sunnan við Hafnarfjörð þar sem bærinn Straumur stendur. Þar er náttúruleg höfn og lendingar þýskra skipa á miðöldum. Þar stóð til að koma upp norskri hvalveiðistöð í upphafi 20. aldar. Bjarni Bjarnason skólastjóri í Hafnarfirði rak stórt býli á Straumi á millistríðsárunum þar til hann fluttist að Laugarvatni. Árið 1964 var víkin valin fyrir álverksmiðju Alusuisse í tengslum við nýtt raforkuver, Búrfellsvirkjun. Íslenska ríkið stóð þá að gerð iðnaðarhafnar í Straumsvík fyrir verksmiðjuna. Álverið í Straumsvík hóf starfsemi þar árið 1969.

Straumsvík árið 2022

Þarna eru miklar lindir við ströndina, svokallaðar fjörulindir, sem sjást best þegar lágsjávað er en þá flæðir vatnið um þröng hraunsund út í víkina. Á flóði fara lindirnar á kaf og lítil ummerki sjást þá um hið mikla ferskvatnsrennsli. Talið er að um 4000 l/s streymi þarna að jafnaði til sjávar. Mikið er um krækling í Straumsvík og töluvert fuglalíf. Þar finnst einnig sjaldgæft afbrigði af bleikju, dvergbleikja, sem þarna lifir í hraungjótum á mörkum ferskvatns og sjávar.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.