Stefán Jónsson (myndlistarmaður)

Stefán Jónsson (f. 15. maí 1964) er íslenskur myndlistarmaður fæddur á Akureyri. Stefán er menntaður á Íslandi og í Bandaríkjunum og hefur sýnt víða um heim á undanförnum árum. Allan sinn listamannsferil hefur hann fengist við að búa til skúlptúra sem sækja andagift í listasöguna. Hann gengur inn í málverk annarra listamanna, íslenskra jafnt sem erlendra, og vinnur úr því sem hann upplifir og sér í þeim og túlkar það í skúlptúrum sínum. Stefán vill meina að ef maður endurskapar hluti á nýjan hátt þá öðlist þeir líka nýtt líf.

Hugmyndir Stefáns kallast á við póst-módernískar hugmyndir. „Sérstaða hans sem listamanns felst í þessari sífelldu skoðun á listaverkum fyrri tíma, vangaveltum um eðli þeirra og merkingu en einkennist einnig af húmor.“ Þannig komst Ragna Sigurðardóttir að orði í Morgunblaðinu þann 12. október 2005.

FerillBreyta

Stefán hóf nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1988 og lauk þar prófi úr skúlptúrdeild árið 1992. Hann hafði reyndar byrjað í grafíkdeild en hún átti ekki nógu vel við hann. Til að mynda vildi hann gera myndir og setja hluti á þær en í grafíkdeildinni var slíkt ekki vel þokkað. Eftir að í Skúlptúrdeildina var komið unni hann sér vel og frelsinu sem hann fékk þar.

Við nám hafði Stefán mætt því viðmóti að engar nýjungar gætu komið fram á sjónarsviðið þar sem hreinlega væri búið að gera allt í listheiminum. Þetta var Stefáni afar hugleikið og hefur hann æ síðan verið að kljást við að „endurvinna listasöguna“ þar sem hún varð honum þess í stað óþrjótandi brunnur nýrra hugmynda. Í ágúst 1992 varð þetta að umfjöllunarefni hans fyrstu einkasýningar eftir útskrift úr MHÍ sem haldin var í Grófargili á Akureyri. Verkin voru unnin úr ýmsum efnum svo sem plasti, spónarplötu, járni, tré og ekki síst legóköllunum sem voru sá samnefnari sem tengdi verkin saman, myndrænt.

„Varðandi það að endurvinna listasöguna má geta þess að þeir eru fjölmargir sem halda því fram að það sé ekki lengur hægt að búa til neitt nýtt í listum. Það sé búið að gera allt. Ég trúi þessu að vísu alls ekki, en ég er kannski að benda á leið úr úr þessum vanda. Ef það skyldi nú vera búið að gera allt þá er að minnsta kosti hægt að gera allt aftur með öðrum viðhorfum og öðrum efnistökum.“

Stefán hélt vestur í meira nám, staðráðinn í því að myndlist væri það sem hann vildi vinna við í framtíðinni. Hann fékk inngöngu í School of Visual Arts í New York í Bandaríkjunum og eftir tveggja ára nám kom hann heim með MFA-gráðu í myndlist árið 1994. Í framhaldi af útskrift hélt Stefán sýningar víðsvegar um Bandaríkin og einnig í Singapore og Finnlandi, sem og hér heima um land allt.

Til að byrja með voru verk Stefáns lítil um sig og áherslan lögð á manneskjuna en ekki umhverfið sem hún var staðsett í. Lengst af notaði hann legókall sem staðgengil manneskjunnar í þeim verkum sem hann vann út frá. Smám saman þróuðust verkin og umhverfið fór að taka sífellt meira pláss þangað til svo var komið að hann var farinn að gera hrein landslagsverk, sem þó voru þrívíð, og legókallinn horfinn með öllu.

Án titils (eftir...)Breyta

Á sýningunni sviðsetti Stefán fræg málverk eftir þekkta meistara þar á meðal Aftökumynd Goya, Förusveinninn skýjum ofar eftir Caspar David Friedrich, Þingvallamynd Þórarins B. Þorlákssonar og Gifting Maríu meyjar eftir Rafael. Myndirnar sem hann velur sér sýna dramatíska atburði en að því gerir Stefán góðlátlegt grín enda eru legókallarnir alltaf skælbrosandi, sama hve hátíðlegir atburðirnir eru. [1] í Verkinu Við gullna hliðið er freska Giottos fyrirmyndin þar sem sýndur er koss Jóakims og Önnu sem leiðir af sér getnað Maríu meyjar. Stefán leiðréttir meðal annars hlutföllin og dregur fram tilfinningaspilið milli elskendanna helgu með því að hafa virkisvegginn himinháan þveröfugt við Giotto. ,,Þetta byrjaði með seríu sem ég sýndi í Ásmundarsal um árið, þar sem ég týndi eftir þörfum sitthvað út úr listasögunni. Næst notaði ég mér þetta verk á sýningunni Akureyri í myndlist, þar sem ég setti Akureyrarkirkju inn í verk úr listasögunni, þar á meðal þetta. Í þriðju útgáfunni fékkst ég við arkitektúrinn í verkinu og svo er þetta enn ný nálgun nú, ég nota arkitektúrinn en er líka að hugsa um söguna sjálfa á bak við freskuna."[2] Halldór Björn Runólfsson sagði í grein sinni í Morgunblaðið þann 11. ágúst 1999 að sýningin væri sú eftirtektasta það sem af væri árið.

KjarvalarBreyta

Kjarvalar er eins og nafnið bendir til kynna, röð skúlptúra innblásin af málverkum Jóhannesar Kjarvals. Stefán færir málverk hans í þrívíðan búning og leyfir litaspjaldi og áferð málverkanna að gefa sér hugmyndir að efnisvali fyrir skúlptúrana. Með þessu skapar hann nýja og nútímalegri umgjörð um landslagsheim Kjarvals og býður upp á nýja nálgun á verk hans. Þarna er það ekki náttúra landsins heldur náttúran í verki Kjarvals sem skiptir máli. ,,Ég labba ekki á fjöll og bý til myndir af þeim en ef ég geri landslagsmynd finnst mér áhugaverðara að gera hana eftir landslagi annarra, eins og frægu landslagi Kjarvals. Ég pæli ekki í náttúrulegu landslagi heldur hinu manngerða.[3]

SýningarBreyta

 • 1990 Maður og umhverfi, Gróttuviti, Reykjavík
 • 1992 Stefán Jónsson. Listagilið á Akureyri. (Einkasýning)
 • 1992 Homage to Matisse, Visual Arts Gallery, New York, NY, USA.
 • 1993 National Showcase Exhibition ‘93. Alternative Museum, New York, NY, USA.
 • 1994 Skúlptúr/skúlptúr/skúlptúr. Kjarvalsstaðir, Reykjavík.
 • 1994 Paintings Mark Engel & Sculptures Stefan Jonsson. NAW Gallery, New York, NY, USA.
 • 1995 Fresh Baby Lambs Open Studios. Fresh Baby Lambs, New York, NY, USA.
 • 1995 New York - Nýló. Nýlistasafnið, Reykjavík.
 • 1996 The Second Annual Fresh Baby Lambs Open Studios. Fresh Baby Lambs, New York, NY, USA.
 • 1996 Ást. Listasafnið á Akureyri.
 • 1997 Útbrot. Gallerí Barmur, Singapore, París. (Einkasýning)
 • 1998 First Show. Plastique Kinetic Worms, Singapore.
 • 1998 Untitled (after...). Plastique Kinetic Worms, Singapore.(Einkasýning)
 • 1998 Draw the Future, an Arts Experience. UE Square, Singapore.
 • 1999 Án titils (eftir...). Ásmundarsalur. (Einkasýning)
 • 1999 Án titils (eftir...). Listasafnið á Akureyri. (Einkasýning)
 • 1999 Við aldamót. Listasafn Íslands.
 • 2000 Feast! Food in Art. Singapore Art Museum.
 • 2001 Akureyri í myndlist. Listasafnið á Akureyri.
 • 2002 Ferðafuða. Ýmsir staðir á Íslandi.
 • 2002 Lava, Ice, Forrest. Rovaniemi Taidemuseo, Finnland.
 • 2002 Hraun - ís - skógur. Listasafnið á Akureyri.
 • 2003 Ferðafuða. Ýmsir staðir á Íslandi.
 • 2003 Hraun - ís - skógur. Norrænahúsið, Reykjavík.
 • 2003 Listasumar. Ketilhúsið, Akureyri. (Einkasýning)
 • 2003 Listaverkahrúga. Bókasafn Háskólans á Akureyri. (Einkasýning)
 • 2005 Við Gullna hliðið. Safn, Reykjavík. (Einkasýning)
 • 2005 Giotto verkin. Jónas Viðar gallery, Akureyri. (Einkasýning)
 • 2006 Dóna Giotto. Laxárstöð, Aðaldal. (Einkasýning)
 • 2007 Svipir og skuggar. Kaffi Karólína, Akureyri. (Einkasýning)
 • 2010 Að elta fólk og drekka mjólk. Hafnarborg, Hafnarfirði.
 • 2011 Myndin af Þingvöllum. Listasafn Árnesinga, Hveragerði.
 • 2011 Kjarvalar. Hafnarborg, Hafnarfirði. (Einkasýning)

TilvísanirBreyta

 1. Jón Proppé. (1999, 23. nóvember). Að lifa fyrir dauðann. Morgunblaðið, bls. 32.

 2. Einar Falur Ingólfsson. (2005. 10. september) Pæli ekki í náttúrulegu landslagi. Morgunblaðið.
 3. Einar Falur Ingólfsson. (2005, 10. september) Pæli ekki í náttúrulegu landslagi. Morgunblaðið.

TenglarBreyta

   Þessi æviágripsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.