Sportsfélag Reykjavíkur
Sportsfélag Reykjavíkur (stundum skrifað Sportfélag Reykjavíkur) var skammlíft íþróttafélag í Reykjavík sem stofnað var 17. mars árið 1896. Tilgangur þess var að standa fyrir hvers kyns íþróttaæfingum í höfuðstaðnum og hófst það handa við vallargerð í því skyni.
Sagan
breytaLitlar og brotakenndar heimildir eru varðveittar um Sportsfélag Reykjavíkur. Árið 1917 birtist í Sumarblaðinu, sem gefið var út af ÍR, stutt grein um sögu félagsins.[1] Þar kemur fram að 17 manns hafi mætt á stofnfundinn og skömmu síðar hafi félagsmenn verið orðnir 90 talsins. Í stofnfundarboði kom fram að félagið skyldi „...stunda meðal annars knattleiki, þreyta róðra og hraðgöngur m.fl.“ Daginn eftir stofnfund sendi félagið bréf til bæjarstjórnarinnar þar sem farið var fram á afnot af Austurvelli til „íþróttalegra leikja“. Féllust bæjaryfirvöld á að lána tvo nyrðri reiti vallarins undir umsjón lögreglustjóra.[2]
Rökrétt er að líta á stofnun félagsins sem framhald af íþróttastarfi skoska prentarans James B. Ferguson sem kom til starfa við prentsmiðju Ísafoldar árið 1895 og var hér á annað ár. Ferguson stofnaði og stýrði fimleikahópi sem nefndist Reykjavík Gymnastic Club og stýrði einnig æfingum í fótbolta. Meðal piltanna sem æfðu undir stjórn Ferguson voru bræðurnir Ólafur og Sveinn, synir Björns Jónssonar útgefanda Ísafoldar. Þeim sem ganga vildu í hið nýstofnaða Sportsfélag var einmitt bent á skrifstofu Ísafoldar.[3]
Knattspyrnufélag Reykjavíkur er talið stofnað árið 1899 og voru í stofnendahópnum allnokkrir þeirra pilta sem Ferguson hafði leiðbeint í íþróttinni. Þar sem Sportsfélag Reykjavíkur hafði knattleiki á stefnuskrá sinni og hefur væntanlega verið skipað mörgum sömu piltum, má telja félagið einhvers konar undanfara að stofnun KR.
Að sögn greinarhöfundar Sumarblaðsins varð lítið úr æfingum á Austurvelli, en þess í stað réðst félagið í að ryðja íþróttasvæði á Melunum. Voru ráðnir til starfans ungir piltar, en sjóðir félagsins tæmdust á skömmum tíma og féll verkið þá niður hálfklárað. Má þó líta á jarðvegsvinnu þessa sem fyrsta skrefið í gerð fyrsta Melavallarins.
Engar heimildir eru til um hvenær Sportsfélagi Reykjavíkur var slitið.
Tilvísanir og heimildir
breyta- Sigurður Á Friðþjófsson (1994). Íþróttir í Reykjavík. Íþróttabandalag Reykjavíkur. ISBN 9979-60-082-9.