Sportsfélag Reykjavíkur

Sportsfélag Reykjavíkur (stundum skrifað Sportfélag Reykjavíkur) var skammlíft íþróttafélag í Reykjavík sem stofnað var 17. mars árið 1896. Tilgangur þess var að standa fyrir hvers kyns íþróttaæfingum í höfuðstaðnum og hófst það handa við vallargerð í því skyni.

Litlar og brotakenndar heimildir eru varðveittar um Sportsfélag Reykjavíkur. Árið 1917 birtist í Sumarblaðinu, sem gefið var út af ÍR, stutt grein um sögu félagsins.[1] Þar kemur fram að 17 manns hafi mætt á stofnfundinn og skömmu síðar hafi félagsmenn verið orðnir 90 talsins. Í stofnfundarboði kom fram að félagið skyldi „...stunda meðal annars knattleiki, þreyta róðra og hraðgöngur m.fl.“ Daginn eftir stofnfund sendi félagið bréf til bæjarstjórnarinnar þar sem farið var fram á afnot af Austurvelli til „íþróttalegra leikja“. Féllust bæjaryfirvöld á að lána tvo nyrðri reiti vallarins undir umsjón lögreglustjóra.[2]

Rökrétt er að líta á stofnun félagsins sem framhald af íþróttastarfi skoska prentarans James B. Ferguson sem kom til starfa við prentsmiðju Ísafoldar árið 1895 og var hér á annað ár. Ferguson stofnaði og stýrði fimleikahópi sem nefndist Reykjavík Gymnastic Club og stýrði einnig æfingum í fótbolta. Meðal piltanna sem æfðu undir stjórn Ferguson voru bræðurnir Ólafur og Sveinn, synir Björns Jónssonar útgefanda Ísafoldar. Þeim sem ganga vildu í hið nýstofnaða Sportsfélag var einmitt bent á skrifstofu Ísafoldar.[3]

Knattspyrnufélag Reykjavíkur er talið stofnað árið 1899 og voru í stofnendahópnum allnokkrir þeirra pilta sem Ferguson hafði leiðbeint í íþróttinni. Þar sem Sportsfélag Reykjavíkur hafði knattleiki á stefnuskrá sinni og hefur væntanlega verið skipað mörgum sömu piltum, má telja félagið einhvers konar undanfara að stofnun KR.

Að sögn greinarhöfundar Sumarblaðsins varð lítið úr æfingum á Austurvelli, en þess í stað réðst félagið í að ryðja íþróttasvæði á Melunum. Voru ráðnir til starfans ungir piltar, en sjóðir félagsins tæmdust á skömmum tíma og féll verkið þá niður hálfklárað. Má þó líta á jarðvegsvinnu þessa sem fyrsta skrefið í gerð fyrsta Melavallarins.

Engar heimildir eru til um hvenær Sportsfélagi Reykjavíkur var slitið.

Tilvísanir og heimildir

breyta
  1. „Sumarblaðið 2. tbl. 1917“.
  2. „Reykvíkingur 3. tbl. 1896“.
  3. „Ísafold 21. mars 1896“.
  • Sigurður Á Friðþjófsson (1994). Íþróttir í Reykjavík. Íþróttabandalag Reykjavíkur. ISBN 9979-60-082-9.