Spirou et Fantasio à Tokyo

bók um Sval og Val frá árinu 2006

Spirou et Fantasio à Tokyo (íslenska: Svalur og Valur í Tókýó) er 49. Svals og Vals-bókin og sú þriðja eftir þá Morvan og Munuera. Hún kom út á bókarformi árið 2006 eftir að hafa birst sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Sval. Bókin hefur enn ekki verið gefin út á íslensku.

Kápumynd frönsku útgáfunnar af Sval og Val í Tókýó.

Söguþráður

breyta

Svalur og Valur eru staddir í Tókýó fyrir orð vinar síns galdrameistarans Ító Kata án þess að vita eiginlegt erindi sitt. Þeir mæta á blaðamannafund vegna opnunar gríðarstórs skemmtigarðs sem helgaður er Jedótímabilinu í sögu Japans. Garðurinn var reistur á undraskjótum tíma á landi sem áður var afdrep heimilisleysingja í borginni.

Forstöðumaður skemmtigarðsins, töframaðurinn Garo flytur setningarræðu með barnungan pilt sér við hlið. Lítil stúlka stekkur fram og skipar honum að láta bróður sinn af hendi. Við tekur mikill eltingaleikur þar sem öryggisverðir garðsins, sem reynast félagar í japönsku mafíunni, eltast við stúlkuna en Svalur og Valur koma henni til hjálpar. Í eltingaleiknum koma fram magnaðir dulrænir hæfileikar barnsins, sem getur leyst mikla krafta úr læðingi með hugarorkunni.

Stúlkan leitar skjóls á hótelherbergi þeirra félaga, ásamt fjölda vina sinna úr röðum heimilisleysingja borgarinnar. Mafíósarnir ráðast til atlögu en Svalur, Valur og stúlkan sleppa og ná fundi Ító Kata. Með honum eru galdramennirnir Alkasar, Cappucino og Atana . Þeir upplýsa að stúlkan og tvíburabróðir hennar búi yfir gríðarlegri hugarorku, en Garo hafi rænt börnunum, haldið þeim föngnum með dáleiðslu og látið þau reisa skemmtigarðinn á örskotsstundu. Stúlkunni hafi hins vegar tekist að strjúka.

Við tekur æsilegt uppgjör þar sem Svalur, Valur, hersveit heimilisleysingja og stúlkan með yfirskilvitlegu hæfeileikana berjast við mafíuna sem nýtir sér krafta drengsins dáleidda. Svalur og félagar sigra og glæpamennirnir fá makleg málagjöld.

Fróðleiksmolar

breyta
  • Sagan er undir sterkum áhrifum frá japanskri Manga-teiknimyndahefð. Teiknarinn Munuera dvaldist um tíma í Japan við undirbúning verksins, en slík undirbúningsvinna er fágæt í sögu bókaflokksins.
  • Þetta er fyrsta bókin því í upphafsbók bókaflokksins, 4 aventures de Spirou et Fantasio, sem nafn Vals kemur fyrir í titli bókar.
  • Töframennirnir Alkasar, Cappucino og Atana (franska: Al Kazar, Père Capuccino og Retros Athana) úr bókinni um Móra snúa aftur í þessari sögu.