Spilafanturinn (franska: Lucky Luke contre Pat Poker) eftir belgíska teiknarann Maurice de Bevere (Morris) er fimmta bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1953, en sögurnar sem hún hefur að geyma birtust fyrst í teiknimyndablaðinu Sval (f. Le Journal de Spirou) á árunum 1951-1952.

Kápa belgísku útgáfu bókarinnar.

Söguþráður

breyta

Bókin hefur að geyma tvær sögur, Rýkur enn á Rauðalæk (f. Nettoyage à Red City) og Róstur á Rambalda (f. Tumulte à Tumbleweed). Í fyrri sögunni hefur Lukku Láki verið skipaður skerfari í bænum Rauðalæk þar sem kráareigandinn og atvinnufjárhættuspilarinn Patti póker fer með öll völd og löggur hafa ekki orðið langlífar. Patti hefur litlar áhyggjur af nýja skerfaranum fyrst um sinn, en eftir að Lukku Láki vinnur Patta í pókerspili og kemur í veg fyrir bankarán að hans undirlagi lætur Patti sverfa til stáls. Eftir einvígi þeirra í kránni, þar sem Lukku Láki er sneggri að draga byssu úr slíðri, þykist Patti falla fyrir byssukúlu Láka og reynir að komast undan með aðstoð útfararstjóra bæjarins. Sú tilraun mistekst og í sögulok lýsir Patti yfir sekt fyrir dómara með táknrænum hætti.

Patti póker fer einnig með stórt hlutverk í seinni sögunni. Eftir margra daga hringsól í eyðimörk kemur Lukku Láki til bæjarins Rambalda og lendir fljótlega í útistöðum við fúlmennið Engilfés sem hrellt hefur íbúa bæjarins um skeið. Þegar Patti póker kemur til bæjarins eftir að hafa unnið lykla að fangaklefa sínum af fangaverði í rommý tekur hann höndum saman við Engilfés um að hefna sín á Lukku Láka. Tilraunir þeirra félaga til að ráða niðurlögum Láka mistakast og lokabardaga á kránni lýkur með því að Engilfés er sleginn í rot og Patti reynir að komast undan á flótta. Hann hrapar í bröttu gili, en er bjargað frá bráðum bana af Lukku Láka og komið fyrir bak við lás og slá.

Fróðleiksmolar

breyta
  • Patti póker var ekki raunveruleg persóna þótt hann eigi sér eflaust fyrirmynd í einhverjum af fjölmörgum alræmdum fjárhættuspilurum Villta Vestursins. Vera kann að útlit persónunnar sé skopstæling á einhverjum öðrum, enda óvenjulegt miðað við stíl Morris á þeim tíma þegar bókin kom út. Persónan átti eftir að birtast á nýjan leik í bókinni Le Pont sur le Mississipi sem kom út árið 1994.
  • Lukku Láki er talsvert óheflaðri í sögunni en síðar varð, blandar rótsterku viskíi saman við bjór og drepur saklaust dýr (skúnk!) án þess að blikka auga. Hann sér þó til þess að skúnkurinn fái sómasamlega greftrun.

Íslensk útgáfa

breyta

Spilafanturinn var gefinn út af Fjölva árið 1981 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er 28. bókin í íslensku ritröðinni.

Heimildir

breyta
  • Lucky Luke. The Complete Collection 2. Cinebook. 2019.