Sléttubönd
Sléttubönd eru dýrt kveðin ferskeytla sem hægt er að lesa bæði afturábak og áfram án þess að raska bragforminu. Merking vísunnar getur þó breyst. Þekkt dæmi um sléttubönd er þessi tvíræða mannlýsing, eignuð sr. Jóni Þorgeirssyni (1597-1674) á Hjaltabakka, föður Steins biskups:
- Grundar dóma, hvergi hann
- hallar réttu máli.
- Stundar sóma, aldrei ann
- illu pretta táli.
Tilbrigði við formið eru svokölluð vatnsheld sléttubönd þar sem orðin í fyrri vísupartinn ríma við orðin í seinni vísupartinn og vatnsheld sléttubönd með afslætti. Sá bragarháttur mun vera einn sá flóknasti í íslenskum kveðskap. Dæmi um slíkt er eftirfarandi vísa eftir sr. Sigurð Norland:
- Frauður kvikur hendist hátt,
- heitur skefur grunna,
- rauður vikur, endist átt,
- eitur kefur runna.
Heimildir
breyta- „Hver orti sléttubandið „Grundar dóma ..."?“. Vísindavefurinn.
- „Hver orti sléttubandið „Grundar dóma ..."?“. Vísindavefurinn. (svar eftir Gunnlaug V. Snævarr)
- Ben Ax., Láttu ganga ljóðaskrá, Vísir (26.01.1974): bls. 9. Sótt frá timarit.is, 5. mars 2017.