Afdráttarháttur
Afdráttarháttur er íslenskur bragarháttur sem er tvöfaldur í roðinu, þ.e.a.s. seinni parturinn leynist í þeim fyrri, því hann kemur af sjálfu sér ef numinn er einn stafur framan af hverju orði. Oft eru aðeins fyrstu tvær braglínur vísna með afdráttarhætti birtar, því mögulegt er að lesa úr fyrripartinum hvað leynist í þeim seinni:
Dæmi:
- Sveinar krjúpa, svellur móður,
- svanir fljúga.
Seinni hlutinn yrði þá:
- Veinar rjúpa, vellur óður,
- vanir ljúga.
Gísli Jónsson íslenskufræðingur skrifaði einu sinni í þætti sínum Íslenskt mál sem birtist reglulega í Morgunblaðinu:
- Einhver mesta raun íslensks máls er að yrkja vísu með afdráttarhætti, svo að vel fari. Afdráttarháttur er þess eðlis að af hverju orði í fyrra hluta vísunnar skal taka fremsta stafinn, og kemur þá seinniparturinn af sjálfkrafa. [1]
Hann birtir síðan þá vísu (sléttubönd) með afdráttarhætti sem hann taldi vera hina bestu sinnar tegundar. Hún er þannig:
- Skulda stærðir höldum há,
- hárum skallar gróa.
- Kulda tærðir öldum á
- árum kallar róa.
- (Gísli Konráðsson á Akureyri 1916-2003)
Fleiri dæmi:
- Særður stungum, þreyttur þreyði,
- þræddi menga svið,
- ærður tungum, reittur reiði
- ræddi enga við.
- (Ragnar Ágústson frá Svalbarði, V-Hún.)
- Drósir ganga, dreyrinn niðar
- drjúpa skúrir.
- Rósir anga, reyrinn iðar
- rjúpa kúrir.